Skotárás á bíl manns í Vogahverfi verður ekki rannsökuð frekar. Maðurinn fékk bréf þess efnis frá ríkissaksóknara fyrir helgi. Hafði hann kært ákvörðun lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hætta rannsókn málsins til ríkissaksóknara.
Eins og fram kom í frétt mbl.is um málið var atvikið flokkað sem minniháttar skemmdarverk í bókum lögreglu. Var maðurinn ósáttur við þá niðurstöðu.
Fram kemur í bréfi frá saksóknara að tæknideild lögreglu hafi staðfest að skotið hefði verið úr haglabyssu að heimili mannsins í Vogahverfi 18. mars á síðasta ári.
Eins kemur fram að einn hafi verið grunaður um aðild að skotárásinni en ekki hafi verið hægt að afla nægra sönnunargagna til þess að ákæra í málinu. Meðal annars kemur fram að byssa hafi verið til skoðunar en ekki hafi tekist að tengja forhlað við tiltekið vopn.
Því var rannsókn málsins hætt.