„Þjóðin er náttúrlega í stofufangelsi og þess vegna hafa þorraveislurnar færst heim í stofu,“ segir Jóhannes Stefánsson, veitingamaður í Múlakaffi.
Þorravertíðin hefur verið rólegri hjá Jóhannesi þetta árið en oftast áður. Samkomutakmarkanir vegna kórónuveirunnar hafa komið í veg fyrir stór þorrablót og hefðbundin mannamót. „Veislurnar hafa verið 80% af rekstrinum hjá okkur og við værum á kafi ofan í tunnunum dag og nótt núna ef við hefðum fengið að lifa eðlilega. Það væri allt á yfirsnúningi fram í apríl í veisluhaldi,“ segir Jóhannes. Til að mæta breyttum aðstæðum í ár ákvað hann að leggja meiri áherslu á þorramat sem fólk getur tekið með sér heim og hefur það mælst vel fyrir.
„Við höfum verið að selja hjónabakka og trog fyrir fimm manns og fleiri. Þetta verður á boðstólum hjá okkur í Múlakaffi fram til 20. febrúar.“
Borg brugghús er að setja á markað nýjan áfengislausan þorrabjór sem er taðreyktur. Ber hann nafnið Hrymur og er kominn í sölu í Krónunni, Melabúðinni, Fjarðarkaupum, Rangá, Pétursbúð og víðar. Jóhannes fékk að smakka á bjórnum, fyrstur manna, á dögunum og kveðst telja að hann passi afar vel með þorramatnum.
„Bjórinn smakkast vel og hann hefur þessi þorra-einkenni. Hann er áfengislaus svo reglufólkið getur fengið sér einn svona með matnum. Ég mæli eindregið með því,“ segir Jóhannes.
Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari hjá Borg, kveðst telja að líklega sé Hrymur fyrsti taðreykti óáfengi drykkur sem framleiddur er í heiminum. Brugghúsið hefur verið að prófa sig áfram við gerð óáfengra bjóra síðustu mánuði og hafa þeir notið vinsælda.
Borg hefur áður gert taðreykta bjóra og vöktu þeir mikla athygli meðal bjóráhugamanna úti í heimi. „Það stuðaði marga að við Íslendingar værum að reykja matvæli með úrgangi kinda. Okkur fannst skemmtilegt að útskýra fyrir fólki að taðreyking væri hversdagsleg hér á landi, að hér sé borðað taðreykt hangikjöt á brauðsneiðum alla daga ársins.“
Fréttin birtist í Morgunblaðinu 5. febrúar.