Fimmtungur getur ekki mætt óvæntum útgjöldum

mbl.is/Kristinn Magnússon

Um fjórðungur launafólks á erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. Um fjórðungur kvenna á vinnumarkaði býr við slæma andlega heilsu. Fimmtungur launafólks getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Staða atvinnulausra er verri en launafólks þegar litið er til fjárhags og heilsu.

Varða lagði nýverið könnun fyrir félaga í aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands og BSRB þar sem spurt var um stöðu launafólks og atvinnulausra. Ákveðið var að ráðast í gerð könnunarinnar meðal annars vegna þeirra miklu erfiðleika sem hluti launafólks býr við vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar, sérstaklega sá stóri hópur sem misst hefur vinnuna.

Stjórn Vörðu er skipuð Drífu Snædal, forseta ASÍ, Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, Garðari Hilmarssyni, varaformanni Sameykis, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, og Kolbeini Hólmari Stefánssyni, lektor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands.

Drífa Snædal forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB.
Drífa Snædal forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. Ljósmynd/ASÍ

Þegar Varða var stofnuð hafði kórónuveirufaraldurinn skollið á og áhrif efnahagskreppunnar í kjölfar faraldursins ófyrirséð. Þegar faraldurinn dróst á langinn og áhrif hans jukust var mikilvægi þess að fylgjast náið með áhrifum hans á launafólk augljóst,“ kemur fram þar sem niðurstöður könnunarinnar eru kynntar.

Niðurstöðurnar sýna verulegan mun á fjárhagsstöðu félagsfólks aðildarfélaga ASÍ og BSRB eftir kyni. Alls sögðu 23,7% þeirra sem tóku þátt í könnuninni að þeir ættu frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Hlutfallið var mun hærra meðal kvenna, 27,2% en hjá körlum mældist það um 19,5%.

Atvinnuframboð af skornum skammti

Staða atvinnulausra var mun verri en staða launafólks. Rúmlega helmingur atvinnulausra, 50,5%, sögðust eiga frekar erfitt eða erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnulausir eru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð.

Atvinnuleysi er mun meira meðal innflytjenda en innfæddra, um 24% samanborið við 15,2% samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar sem vitnað er til í skýrslu Vörðu og því ljóst að um viðkvæman hóp er að ræða.

Alls sögðust um 34,9% innflytjenda eiga erfitt eða frekar erfitt með að láta enda ná saman. Það er mun hærra hlutfall en meðal innfæddra, þar sem 26,2% voru í sömu stöðu. Innflytjendur líða frekar efnahagslegan skort og hafa í meira mæli þurft að þiggja matar- og/eða fjárhagsaðstoð.

Innflytjendur eiga erfiðara með að láta enda ná saman

Fjárhagsstaða innflytjenda er verri á öllum mælikvörðum. Þeir eiga erfiðara með að láta enda ná saman, líða frekar efnislegan skort og hafa í meira mæli þegið matar- og/eða fjárhagsaðstoð. Mun færri innflytjendur en innfæddir búa í eigin húsnæði eða 34,9% en meðal innfæddra er hlutfallið 77,4%. Stærri hluti innflytjenda býr á almennum leigumarkaði eða 49,3% en hlutfallið er mun lægra meðal innfæddra, 11,1%.

Andlegt heilsufar innflytjenda er verra, en líkamlegt heilsufar betra. 30,5% innflytjenda mælast með slæma andlega heilsu. Innflytjendur sögðust síður hafa þörf fyrir heilbrigðisþjónustu en 24,7% höfðu neitað sér um heilbrigðisþjónustu en 13,5% innfæddra. Atvinnulausir innflytjendur sýna almennt meiri virkni og sveigjanleika en innfæddir og á það sérstaklega við um atvinnulausar konur.

Andleg heilsa 41,6% ungs fólks er slæm en 21,4% þeirra sem eru eldri og voru mun fleiri í þeirra hópi eða 58,9% sem höfðu neitað sér um heilbrigðisþjónustu á síðastliðnum sex mánuðum en 33,8% hjá eldri hópnum.

Óöryggi og fjárhagsáhyggjur hafa mikil áhrif á líðan

„Það er einmitt sláandi munur á líðan þeirra sem eru utan eða innan vinnumarkaðar og birtist í þessari rannsókn hinn grimmi tollur atvinnuleysis. Andleg líðan og í ákveðnum hópum líkamleg líka er miklu verri hjá atvinnuleitendum enda hefur óöryggi og fjárhagsáhyggjur mikil áhrif á líðan. Þetta er líka hópurinn sem neitar sér um heilbrigðisþjónustu þótt full þörf sé á. Hópurinn sem kemst ekki í sumarfrí með fjölskyldunni og getur illa gert áætlanir fram í tímann, hvort sem það varðar búsetu eða annað,“ er meðal annars haft eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, um könnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert