Bæjarstjórn Akraness fagnar nýrri skýrslu um lagningu Sundabrautar og hvetur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Reykjavíkurborg til að hefja nú þegar undirbúningsvinnu við hana.
Þetta kemur fram í bókun bæjarstjórnarinnar.
„Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er brú yfir Kleppsvík talin mjög vænlegur valkostur, bæði hvað varðar kostnað og einnig myndi hún nýtast betur fyrir almenningssamgöngur, hjólandi og gangandi umferð. Það er von okkar að þessi lausn höggvi á þann hnút sem verið hefur varðandi val á samgöngumannvirki til þverunar Kleppsvíkur,“ segir í tilkynningu.
„Það velkist enginn í vafa um mikilvægi Sundabrautar,“ segir þar enn fremur.
„[Hún] styttir vegalendir, eykur umferðaröryggi, bætir almenningssamgöngur og tryggir greiðari umferð. Það felur síðan í sér sterkari og heildstæðari vinnumarkað á suðvesturhorni landsins.“