Benedikt upplýsi um málskostnað

Benedikt Bogason (til vinstri) og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Benedikt Bogason (til vinstri) og Jón Steinar Gunnlaugsson. Samsett mynd

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, hefur farið fram á að Benedikt Bogason, forseti Hæstaréttar, upplýsi um málskostnaðinn vegna máls sem hann höfðaði gegn Jóni Steinari fyrir meiðyrði.

Jón Steinar var í síðustu viku sýknaður í Hæstarétti af kæru Benedikts í máli sem teygir sig aftur til ársins 2012.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu nefnir Jón Steinar að lögmaður Benedikts hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar fyrir dóminn um kostnað skjólstæðings síns vegna málaferlanna. Í eyra Jóns Steinars hafi verið hvíslað að Benedikt hafi ekki greitt lögmanni sínum, sem hafi verið sólginn í að fá að reka málið vegna þess að í því fælist upphefð.

„Grunsemdir um að þessi valdamikli dómari þiggi á laun greiða frá starfandi lögmönnum í landinu eru ekki ásættanlegar. Þess vegna verður hann undanbragðalaust að gefa þessar upplýsingar,“ skrifar hann. 

Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son rak málið fyr­ir hönd Bene­dikts og Gest­ur Jóns­son flutti mál Jóns Stein­ars.

Frá málflutningi mál Benedikts gegn Jóni Steinari. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson …
Frá málflutningi mál Benedikts gegn Jóni Steinari. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson flutti málið fyrir Benedikt og Gestur Jónsson fyrir Jón Steinar. Ljósmynd/mbl.is

Þurfti ekki að greiða málskostnað

Jón Steinar bendir í greininni á að á öllum þremur dómstigunum hafi málskostnaður verið felldur niður. Það sé undarlegt því venjan er að þegar sá sem tapar máli áfrýjar til hærra dómstigs, þar sem dómur er svo staðfestur, sé áfrýjandinn að jafnaði dæmdur til að greiða hinum kostnað hans á áfrýjunarstigi.

„Niðurstaðan er sú að valdsmaðurinn mikli er látinn komast upp með að stefna mér fyrir dóm og valda mér á þremur dómstigum verulegum kostnaði, sem ég fæ ekki borið uppi, þó að ég sé sýknaður á öllum þremur á þeim forsendum sem ég hafði byggt málflutning minn á frá upphafi,“ skrifar Jón Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert