Búin undir fjöldabólusetningar

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við höfum ekki verið beðin sérstaklega um að vera reiðubúin að bólusetja marga á skömmum tíma. Við höfum hins vegar verið búin undir það frá því í nóvember enda vitum við hvernig á að gera þetta,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu spurður um það hvort heilsugæslan hafi verið beðin um að vera í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegs samnings við Pfizer. 

Þá segir hann að ný bólusetningamiðstöð í Laugardalshöll, sem tekin verður í gagnið á morgun, sé algjörlega óháð umleitunum við Pfizer. Vissulega bæti þetta afkastagetu heilsugæslunnar til bólusetninga, þar sem hægt verður að taka á móti 10-15 þúsund manns í einu, en ekki sé neitt meira á bak við það. 

Hann segir að heilsugæslan viti ekki meira en aðrir um hugsanlegt samkomulag. „Það er stundum verið að gera því skóna að við vitum eitthvað meira um einhverja samninga en aðrir. Staðreyndin er hins vegar sú að við vitum ekki neitt um neina samninga og erum bara jafn spennt og aðrir,“ segir Óskar.

Hann segir að samkvæmt áætlunum heilsugæslunnar sé horft til þess að nota kennslustofur í skólum landsins og íþróttahús þótt nánari útfærsla gæti breyst lítillega ef til stórra bólusetningardaga kemur. Það helgist meðal annars af því að fara þurfi eftir fyrirmælum frá slökkviliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert