Skátaskáli, sem um leið er útilífsmiðstöð í Garðabæ, hefur risið á hálfu öðru ári við Grunnuvötn í Heiðmörk. Það er Skátafélagið Vífill sem stendur fyrir framkvæmdum og er aðeins lokahnykkurinn eftir. „Þetta hefur gengið ljómandi vel enda ekkert nema snillingar í iðnaðarmannahópnum, þeir hafa staðið að verki í einu og öllu eins og þeir ætli að búa þarna sjálfir,“ segir Björn Hilmarsson, formaður húsnefndar skátafélagsins.
Sökklar hússins og plata eru steypt, en húsið sjálft er tveggja hæða, byggt úr timbri, 200 fermetra meginhæð og 100 fermetra svefnloft. Árið 2007 fékk Vífill samning um að byggður yrði nýr skátaskáli í 40 ára afmælisgjöf frá Garðabæ. Meðal annars vegna hrunsins drógust framkvæmdir á langinn og hætt var við fyrirhugaða byggingu á Hjallaflötum fyrir ofan gönguleiðina að Búrfellsgjá vegna nándar við vatnsverndarsvæði Hafnfirðinga. Í tengslum við 50 ára afmæli Vífils var afmælisgjöfin „endurvakin“ og Garðabær lagði verkefninu til alls 150 milljónir á þremur árum og skálanum var valinn staður við Grunnuvötn í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli.
Nú hefur skátafélagið sent bæjarstjórn Garðabæjar erindi um stuðning upp á 8-10 milljónir til viðbótar vegna kostnaðar við innbú og innréttingar. Björn segir að þessi viðbótarkostnaður sé til kominn vegna tafa vegna kórónufaraldursins og vegna þess að því miður hafi virðisaukaskattur ekki fengist endurgreiddur þegar byggt sé fyrir opinbert styrkjafé.
Hann segist bjartsýnn á að farsæl lausn fáist á málinu og hægt verði að taka húsið í notkun í vor og hefja rekstur af krafti í haust. Auk skátastarfs verði útikennsla skóla þar sem bekkir geti gist í eina til tvær nætur. Einnig verði Vífilsbúð áningarstaður í útivist almennings í skipulögðum útivistarviðburðum á vegum Vífils og Garðabæjar.