Leit hefur verið hætt í bili að þremenningunum á K2 vegna þess hve slæmt veður er á þessum slóðum. Leit verður haldið áfram um leið og veðrið skánar.
Vonir um að einhver þeirra þriggja, Johns Snorra Sigurjónssonar, Muhammad Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, finnist á lífi eru litlar og ekki öruggt að hægt verði að halda leit áfram í dag eða jafnvel næstu daga gangi veðurspáin eftir. Fjallgöngumaðurinn Mohr, sem er frá Chile, er 34 ára í dag.
Þremenningarnir misstu samband við grunnbúðir á föstudag og var opinberlega greint frá því á laugardag að þeirra væri saknað.
Samkvæmt upplýsingum frá pakistanska hernum verður leit haldið áfram um leið og veðrið skánar. Undanfarna daga hefur herinn notað Ecureuil-þyrlur við leitina sem geta flogið í 7 þúsund metra hæð en ísveggurinn (Bottleneck) þar sem síðast sást til þeirra byrjar í 8.100 metra hæð. Ísveggurinn er síðasti en um leið erfiðasti farartálminn upp á þetta næsthæsta fjall heims, K2, sem er 8.611 metrar að hæð.
Í gær stóð til að nota C-130-herflugvélar með innrauðum búnaði (FLIR) við leitina í dag. Aftur á móti virkar FLIR ekki í þessari hæð og kulda samkvæmt frétt Dawn.com.
Formaður alpaklúbbs Pakistans, Karrar Haidri, segir að leiðangrinum verði haldið áfram en vegna veðurs eru aðstæður gríðarlega erfiðar. „Það er mjög skýjað í dag og skyggni lítið. Vonandi batnar veðrið,“ segir Haidri.
Greint hefur verið frá því að ættingjar Sadpara, fjallgöngumennirnir Imtiaz Hussain og Akbar Ali, hafi neitað að fara niður í grunnbúðir og þeir séu enn á fjallinu þrátt fyrir slæmt veður. Ekki er vitað með fullri vissu hvort þeir eru enn í búðum 1 eða hafi haldið áfram upp að leita að þremenningunum.
Fjölskyldur allra þriggja fjallgöngumannanna hafa gefið út tilkynningar þar sem þær þakka öllum þeim sem hafa komið að leitinni og sýnt þeim stuðning. Vonir þeirra séu bundnar við að hægt verði að hefja leit að nýju eins fljótt og auðið er.
Í sameiginlegri tilkynningu þakka þær meðal annars fjallgöngumanninum Alex Găvan fyrir hans stuðning og þátttöku í aðgerðunum og þeim sem hafa beðið fyrir þeim og sýnt samkennd og stuðning. Þar kemur fram að bresk-bandaríska fjallgöngukonan Vanessa O’Brien, sem kleif K2 með John Snorra árið 2017, hafi sett upp sýndar-grunnbúðir og deili hún upplýsingum um björgunaraðgerðir.
Þar er hægt að finna gervihnattamyndir í góðum gæðum, myndir sem hafi verið notaðar í fyrri björgunarleiðöngrum á K2. Þannig sé hægt að skoða svæði sem eru óaðgengileg fyrir þyrlur vegna óhagstærða veðurskilyrða og mikils roks.