Gert að gangast undir „niðurlægjandi samningaviðræður“

Efling segir að margítrekuðum óskum félagsins um að fá kynningu …
Efling segir að margítrekuðum óskum félagsins um að fá kynningu á efni frumvarpsins áður en það yrði sent úr félagsmálaráðuneytinu hafi verið hafnað eða þær hunsaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling segir að íslensk stjórnvöld hafi gengið á bak orða sinna um réttarbót fyrir þolendur launaþjófnaðar og brotastarfsemi á vinnumarkaði með gagnslausum lagasetningarhugmyndum þar sem sjónarmið verkalýðshreyfingarinnar séu virt að vettugi.

Félagið segir í tilkynningu, að í frumvarpi sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hafi sent frá sér, séu þolendur launaþjófnaðar skikkaðir til að hætta eigin atvinnuöryggi áður en Vinnumálastofnun veiti þeim áheyrn í nýju og gríðarlega flóknu málsmeðferðarferli, þar sem í hverju skrefi halli á brotaþola. Brotaþolum sé meðal annars gert að undirgangast niðurlægjandi samningaviðræður um endurgreiðslu á stolnum launum við brotlegan atvinnurekanda.

Farið „með silkihönskum um gerendur“

Segir enn fremur, að atvinnurekendur fái fullt sjálfdæmi um eigin sök í „samráðsnefnd“ og fái sjálfir að ákveða hvort sérstakur gerðardómur fjalli um mál þeirra. Lagasetningin sé í algjörum sérflokki í því að fara með silkihönskum um gerendur, og gefi þeim enn ríkari undankomuleiðir en í núverandi launakröfuferli stéttarfélaganna.

„Brot á fullgildum ráðningarkjörum meirihluta launafólks á almennum vinnumarkaði eru alfarið undanskilin lagasetningunni þar eð hún tekur aðeins til brota á lágmarkskjörum kjarasamninga en ekki til brota á ráðningarsamningum.

Málsmeðferðarskilyrði leggja afar litlar skyldur á Vinnumálastofnun, til að mynda varðandi athugun á heildartilhögun launamála á vinnustað þar sem grunur leikur á um brotastarfsemi, og setja þess í stað alla ábyrgð á herðar einstaks launamanns og takmarka viðurlög við mál hans eins,“ segir Efling í tilkynningu. 

Nánar má lesa hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert