Í gæsluvarðhald vegna ofbeldis og hótana

Frá Landsrétti.
Frá Landsrétti. mbl.is/Hanna

Landsréttur staðfesti í síðustu viku gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms yfir manni sem er grunaður um heimilisofbeldi og hótanir. Skal maðurinn sæta varðhaldi til 26. febrúar. 

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, sem Landsréttur hefur staðfest, að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi nú til rannsóknar ætluð brot mannsins. Hann er sakaður um að hafa beitt fyrrverandi sambýliskonu sína og dóttur hennar ofbeldi og fyrir að hafa haft í hótunum við þær. 

Í greinargerð með kröfu lögreglustjórans segir að embættinu hafi 26. janúar sl. borist aðstoðarbeiðni frá barnavernd vegna heimilisofbeldis af hálfu mannsins. Hafði fósturdóttir mannsins greint frá ofbeldi á heimilinu af hendi mannsins. Hann er sakaður um að hafa lagt hendur á sambýliskonu sína, sem er móðir stúlkunnar, og beitt þær báðar andlegu ofbeldi. 

Þá kemur fram að maðurinn hafi hótað konunni lífláti og konan hafi raunverulega verið hrædd um líf sitt. 

Fram kemur, að maðurinn hafi árið 2017 verið dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás gegn þáverandi sambýliskonu sinni og brot gegn nálgunarbanni. Tveimur árum síðar var hann dæmdur fyrir 96 brot gegn nálgunarbanni gagnvart sömu konu. Var manninum þá gert að sæta sex mánaða skilorðsbundnu fangelsi. 

Í úrskurðinum segir að maðurinn hafi í verulegum atriðum rofið skilorð dómsins sem hann hlaut 2019. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert