Kórónuveirufaraldurinn hefur komið sér ágætlega fyrir háskólanema af erlendum uppruna að því leyti að upplýsingar eru aðgengilegri en áður og hægt að hlusta aftur á fyrirlestra. Aftur á móti er félagslífið minna og það er erfitt fyrir fyrsta árs nema.
Þetta er meðal þess sem kom fram í spjalli Renötu Emilsson Pesková, doktorsnema og aðjúnkts á menntavísindasviði, við Fawenchu Rosa, nema í fatahönnun í Listaháskóla Íslands, Lenyu Rún Taha Karim, nema í lögfræði við Háskóla Íslands, og Wandari Desi Rosidayati, nema í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, á jafnréttisdögum háskólanna nýverið.
Vegna kórónuveirufaraldursins hafi kennslan færst yfir á netið sem þýði að kennarar setji alla fyrirlestra og efni á netið þannig að auðveldara er fyrir þá sem ekki eru með fullkomið vald á íslensku að velja hraða á upptökum og hlusta aftur ef eitthvað er óljóst. Eins er auðveldara að leita uppi orð í orðabókum eða annars staðar á netinu ef merkingin er óljós.
Þær töluðu um að félagslífið hafi aftur á móti lagst í dvala í Covid-19 og þakka sínum sæla fyrir að vera ekki á fyrsta ári. Eitthvert félagslíf er með rafrænum hætti en það er aldrei það sama og að hitta fólk og tala við það. Wandari benti á að það mætti líka alveg setja á laggirnar félag nemenda af erlendum uppruna þvert á greinar líkt og algengt er hjá erlendum háskólum.
Menningarmunur og bakgrunnur var þeim líka ofarlega í huga varðandi stöðu háskóla af erlendum uppruna. Þá skorti oft bakgrunnsþekkingu sem er til staðar hjá þeim sem eru fæddir og uppaldir á Íslandi. Eins eiga þeir erfiðara með að fá stuðning heima fyrir varðandi námið, til að mynda ritgerðarskrif. Engin þeirra hafði þó upplifað að fá lægri einkunn fyrir ritgerðir og verkefni vegna íslenskukunnáttu en þær tala allar íslensku og stunda nám á íslensku.
Lenya segir að þrátt fyrir að hafa búið á Íslandi nánast allt sitt líf hafi hana skort orðaforða í lögfræði þegar hún hóf námið og á þessum árum sem hún er búin að læra lögfræði (hún er á þriðja ári) hafi hún komið sér upp orðasafni með alls konar hugtökum tengdum náminu.
Þær eru sammála um að það felist ákveðin hindrun í því að tala annað tungumál en það tungumál sem er talað í háskólum. Til að mynda að vera með fræðileg hugtök á hreinu. Þeirra móðurmál er í öllum tilvikum annað en íslenska og enska. Wandari er ættuð frá Indónesíu, Lenya er Kúrdi og Fawencha frá Haíti. Það væri til góðs að veita þessum nemendum aðeins meiri stuðning við námið, ekki síst þegar þeir hefja nám við háskóla.
Þær segja að aðgengi að háskólanáminu hafi verið gott þegar þær sóttu um nám við Háskóla Íslands og Listaháskólann. Fyrsta árið hafi verið erfitt en mikill munur sé á framhaldsskólanámi og háskólanámi á Íslandi. Háskólanám sé erfitt en það sé líka eðlilegt. Háskólanám eigi ekki að vera auðvelt segja þær.
Lenya talaði í málstofunni um skort á fyrirmyndum á Íslandi þegar kemur að konum af erlendum uppruna. Konum sem hafa náð langt í til að mynda lögfræði og stjórnmálum á Íslandi.
Fjölmiðlar tali mjög sjaldan um konur af erlendum uppruna og ef haldin eru málþing eru það alltaf sömu konurnar sem eru fengnar til að tala aftur og aftur. „Ég væri til í að sjá aukinn fjölbreytileika innan íslenska samfélagsins. Innflytjendur eru 15% af íslensku þjóðinni. Það er hátt hlutfall. Hvar eru allir? Hvar eru allar konurnar? Ég er til í að sjá meiri fjölbreytileika innan íslenska samfélagsins og þá gætu þær gefið mér smá von um að uppfylla mína drauma þegar ég hef útskrifast úr lögfræðinni,“ segir Lenya.
Lenya segist eiga sér þann draum að verða forseti, hvort sem af því verði, og vinna sem lögfræðingur að mannréttindamálum, ekki síst við að efla raddir ungra kvenna, einkum af erlendum uppruna. Lenya segir að skortur á fyrirmyndum hvetji hana áfram. Fáir af erlendum uppruna komist í sviðsljósið þegar kemur að stjórnmálum og lögfræði. Fái vinnu við þau störf sem hún hefur áhuga á að starfa við.
Þegar Renata spurði þær út í framtíðina sagðist Wandari vonast til þess að fá góða vinnu að viðskiptafræðinámi loknu og að vera öðrum fyrirmynd.
Fawencha segir að hennar draumur sé að stofna textíl- og hönnunarfyrirtæki. Sköpun og hönnun sé það sem hún hafi mestan áhuga. Að hanna nýja hluti og lausnir sem geti hjálpað heiminum í framtíðinni.