Bílaumferð um Mýrdalssand var að jafnaði um 70% minni allt síðastliðið ár en á árinu á undan ef undan eru skildir mánuðirnir júlí og ágúst. Yfir allt síðasta ár var umferðin að jafnaði aðeins um helmingur umferðarinnar árið á undan.
Þetta kemur fram í samantekt Hagstofunnar um umferðina í fyrra skv. umferðarteljurum Vegagerðarinnar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Sem dæmi um samdráttinn á tímum veirufaraldursins kemur fram að meðalfjöldi bifreiða sem ekið var um hringveginn á Mýrdalssandi í apríl, í miðri fyrstu bylgju faraldursins, fór úr því að vera 1.046 bílar á dag árið 2019 niður í 217 bíla í apríl í fyrra.