Minni hreindýrakvóti ekki áhyggjuefni

Hreindýrakvótinn hefur farið minnkandi síðustu tvö ár.
Hreindýrakvótinn hefur farið minnkandi síðustu tvö ár. Kristinn Ingvarsson

Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir minnkandi hreindýrakvóta ekki vera til kominn vegna áhyggja af hreindýrastofninum.

„Stofninn er ekki í neinni hættu. Hins vegar eru ákveðnir þættir sem við höfum áhyggjur af,“ segir Skarphéðinn við mbl.is.

Um­hverf­is- og auðlindaráðherra hef­ur ákveðið að í ár verði heimilt að veiða allt að 1.220 hrein­dýr, en það er fækkun um 105 dýr síðan í fyrra, og 231 síðan 2019.

Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.
Skarphéðinn G. Þórisson, sérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

„Það er einum færri í tarfakvótanum í ár, en kúakvótinn minnkar um 104. Það er aðallega á veiðisvæði 2 þar sem við fundum einfaldlega ekki öll þau dýr sem við bjuggumst við að væru þar,“ bendir Skarphéðinn á.

„En það þýðir ekki það að dýrin séu dauð, þau eru bara á öðrum svæðum eða þá að við finnum þau ekki,“ segir hann.

„Þetta er mjög stórt svæði og þess vegna byggjum við mikið á upplýsingum frá hreindýraleiðsögumönnum og heimamönnum. En við getum aldrei fundið öll dýrin.“

Er ákvörðun ráðherra þá algjörlega í samræmi við ykkar tillögur?

„Já, kvótinn hefur eiginlega alltaf verið það í gegnum tíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert