„Ég á ekki von á því að menn muni ganga út með undirritað plagg,“ segir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is. Nú stendur yfir fundur lyfjarisans Pfizer og íslenskra vísindamanna, þar á meðal eru Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Umræðuefni fundarins er hugsanleg framkvæmd svokallaðrar fjórða fasa vísindarannsóknar. Slík rannsókn myndi fela í sér að meirihluti þjóðarinnar yrði bólusettur á skömmum tíma þannig að hér næðist hjarðónæmi. Fundurinn hófst klukkan 16 og segist Kjartan Hreinn fremur eiga von á viljayfirlýsingu eða drögum að samningi.
„Það er líklegt. Þá er það upphafið að einhverju góðu og upphafið að víðtækara samtali. Það verður ekkert ákveðið þarna fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Við þurfum að ræða við okkar yfirmenn (ríkisstjórnina).“
Ekki hefur verið boðað til ríkisstjórnarfundar vegna fundar fulltrúa Íslands og bóluefnaframleiðandans Pfizer, sem fram fer í þessum töluðum orðum. Þetta staðfestir Róbert Marshall upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.