Rannsókn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á árásinni í Borgarholtsskóla fyrir tæpum mánuði er á lokametrunum.
Að sögn Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns gengur rannsóknin vel. Enn eru sex með réttarstöðu sakbornings í málinu.
Eftir að miðlæg rannsóknardeild lýkur sinni rannsókn fer málið til ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem ákveðið verður með framhaldið.
Þrír voru upphaflega handteknir vegna málsins og var einn úrskurðaður í gæsluvarðhald. Sætti hann meðal annars einangrun í fangelsinu. Síðar felldi Landsréttur úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð héraðsdóms og var maðurinn látinn laus.