Ríkið sýknað af 120 milljóna kröfu Barkar

Börkur Birgisson í fylgd lögreglumanns.
Börkur Birgisson í fylgd lögreglumanns. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað íslenska ríkið af 120 milljóna króna skaðabótakröfu Barkar Birgissonar. Hann höfðaði málið eftir að hafa verið vistaður á öryggisdeild Litla-Hrauns í 18 mánuði á árunum 2012 til 2013.

Börkur og Annþór Karlsson voru sakaðir um að hafa banað samfanga sínum, Sigurði Hólm Sigurðssyni, í fangelsinu í maí 2012.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum réttarkrufningar virtist Sigurði hafa blætt út innvortis á mjög skömmum tíma vegna rofs á milta og aðliggjandi æð við miltað. Talið var að það hefði gerst eftir utanaðkomandi högg.

Hann lést stuttu eftir að Börkur og Annþór höfðu verið einir með honum í klefanum í um 11 mínútur.

Í júní var ákveðið að vista Börk og Annþór á svokallaðri öryggisdeild fangelsisins, sem hafði þá verið rýmd af öðrum föngum.

Vistunin var ákveðin til þriggja mánaða í senn og framlengd fimm sinnum. Börkur var vistaður á öryggisdeildinni til 5. desember 2013.

Börkur byggði mál sitt fyrir héraðsdómi á því að ákvörðunin um vistun á öryggisgangi hefði verið ólögmæt sem og aðdragandi hennar og tilhögun. Auk þess hefði forstjóri Fangelsismálastofnunar gert sig vanhæfan í málinu með ummælum sínum í fjölmiðlum á frumstigum málsins.

Grunaður um ofbeldi og ógnandi hegðun

Ríkið byggði vörn sín á því að vistun Barkar á öryggisdeild Litla-Hrauns hefði ekki verið ákveðin til að tryggja rannsóknarhagsmuni við rannsókn sakamálsins heldur vegna þess að hann hefði sýnt ógnandi hegðun í afplánun. Hann hefði verið grunaður um að hafa beitt samfanga sína ofbeldi, þar á meðal svo alvarlegu ofbeldi að bani hafi hlotist af.

Föngum hafi stafað mikil ógn af honum og ástandið í fangelsinu hafi verið þannig að nánast enginn fangi hafi treyst sér til að vera nálægt Berki og Annþóri.

Þá var einnig hafnað að nokkur þau ummæli hefðu verið höfð eftir forstjóra Fangelsismálastofnunar sem ættu að leiða til bótaskyldu. Forstjórinn hefði aldrei nafngreint Börk heldur rætt mál almennt, ekki síst til að róa fanga og aðstandendur þeirra. Bent var á að innanríkisráðuneytið hefði staðfest að sú umfjöllun hefði verið almenn og ekki leitt til vanhæfis forstjórans til að koma að málinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Rökstuddur grunur fyrir hendi

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að dómstólar töldu rökstuddan grun vera fyrir hendi um að Börkur hefði átt þátt í tilkomu áverka sem leiddu til þess að samfangi hans lést.

Aðstæðurnar og ráðstafanirnar sem einkenndu vistunartíma Barkar á öryggisdeildinni hefðu verið lögmætar. Ekki hafi verið gengið lengra en þörf var á í þeim efnum.

Bótakröfu um að með ummælum sínum hafi forstjóri brotið gegn æru og persónu Barkar var jafnframt hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka