Fjöldi fólks kom saman á Arnarhóli í dag til að sýna Nígeríumanninum Uhunoma Osayomore stuðning í umsókn sinni um alþjóðlega vernd hér á landi. Nú hafa ríflega 32 þúsund manns skorað á stjórnvöld að endurskoða synjun á umsókninni.
Í myndskeiðinu má myndir af viðburðinum og þar er rætt við Ívar Pétur Kjartansson, vin Uhunoma, sem segir með ólíkindum að kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun hafi komist að því að hann væri öruggur í Nígeríu miðað við sögu hans. Á meðan Íslendingar hafi verið að horfa á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu á HM í Rússlandi hafi Uhunoma „upplifað einhvers konar hörmungar sem maður getur ekki skilið“, segir Ívar Pétur.
Um helgina var rætt við Uhunoma sem lagði á flótta frá Nígeríu á barnsaldri og kom hingað til lands fyrir tæpu einu og hálfu ári. Hann óttast að faðir hans drepi hann snúi hann aftur til Nígeríu en Osayomore varð vitni að því þegar faðir hans varð móður hans að bana.
Þar var einnig rætt við lögmanninn Magnús D. Norðdahl og Morgane Priet-Maheo en Osayomore hefur búið á heimili hennar og fjölskyldu hennar frá því í júlí.
Í pistli með undirskriftasöfnuninni er stuttlega farið yfir sögu Uhunoma.
„Uhunoma er 21 árs og er frá Nígeríu. Árið 2016, þegar hann var aðeins 16 ára, flúði hann frá heimili sínu í Nígeríu eftir að faðir hans myrti móður hans og yngri systir lést af slysförum.
Hann fór til Lagos, höfuðborgar landsins, og lenti þar í höndum þrælasala sem seldu hann mansali og upphófst þar með hræðilegt ferðalag sem leiddi hann til Íslands í október 2019. Á leiðinni upplifði hann hryllilega hluti, varð vitni að morðum, var haldið föngnum í fjárhúsi og varð ítrekað fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í þrjú ár bjó hann í flóttamannaíbúðum á Ítalíu.
Hann hóf ferðalagið sem barn en endaði á Íslandi sem einstæður fullorðinn maður.“
„Uhunoma þarfnast engrar aðstoðar íslenska ríkisins og á sér aðeins þá einu ósk að fá að lifa óttalausu lífi sem fullgildur borgari á Íslandi með fjölskyldu sinni og vinum,“ segir í pistlinum og jafnframt:
„Nú er komið að því að íslensk stjórnvöld ætla að vísa Uhunoma úr landi, jafnvel þótt hans málsmeðferð sé enn í gangi, og ætla stjórnvöld þannig, enn einu sinni, að vísa fórnarlambi mansals úr landi og til baka í aðstæður sem eru honum lífshættulegar.“