„Við vorum í startholunum“

Hrund Rudolfsdóttir.
Hrund Rudolfsdóttir. mbl.is/Hari

„Það var búið að impra á því við okkur að þetta gæti kannski staðið til. Það var ekki með neinum ákveðnum hætti heldur á svipaðan máta og sóttvarnalæknir er búinn að útskýra,“ segir Hrund Rudolfsdóttir forstjóri Veritas, dreifingaraðila Pfizer á Íslandi. Vísar hún í máli sínu til þess að ekkert verði af tilraunaverkefni Íslands og lyfjarisans Pfizer.

„Þórólfur sagði að þetta væri í viðræðum en ekkert afgreitt,“ segir Hrund sem kveðst aðspurð hafa verið búin undir að hingað kæmu nokkur hundruð þúsund skammtar. „Við vorum í startholunum.“

Að hennar sögn var hún vongóð um að samningar myndu nást. Þá kveðst hún leið yfir því að ekki hafi tekist að fá nægilega marga skammta hingað til lands þannig að kveða mætti kórónuveiruna niður. „Ég vonaði það en það er eins og alltaf, þetta er ekki klárt fyrr en blekið er komið á. Maður þorði ekki að gera sér miklar vonir, en það er leiðinlegt að þetta hafi ekki gengið.“

Aðspurð segir hún að talað hafi verið um skammtarnir yrðu samtals fjögur hundruð þúsund. Þá hefðu þeir verið afhentir í tvennu lagi með nokkurra vikna millibili. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert