Eiturefnaóhapp varð í flugskýli Icelandair á Keflavíkurflugvelli nú á tólfta tímanum þegar verið var að tæma klórtunnur til að hreinsa þær.
Að sögn Herberts Eyjólfssonar, varðstjóra hjá brunavörnum Suðurnesja var klórnum hellt í annað ílát og væntanlega var einhver glussi (olía) í ílátinu því þegar klórnum var hellt í það mynduðust efnahvörf.
Einhverjir þeirra sem voru á staðnum fengu smá sviða í augu en engin slys urðu á fólki. Þeim, sem fundu fyrir sviða í augum, var ráðlagt að leita til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að sögn Herberts.
Hreinsunarstarfið gekk vel að sögn Herberts og er búið að koma klórnum fyrir í sérstakri spilliefnatunnu en auk slökkviliðs höfðu bæði lögregla og heilbrigðiseftirlitið aðkomu að málinu.