Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að ekkert hafi verið rætt á fundi með Pfizer um að vísindarannsókn á Íslandi yrði álitlegur kostur ef smittíðni fer upp í samfélaginu á ný. „Það var búið að spenna bogann og væntingarnar allt of hátt. Þetta voru alltaf bara þreifingar og óformlegar viðræður á milli aðila,“ segir Þórólfur Guðnason.
Nú hefur þú sagt að litlar líkur séu á því að af rannsókn verði. Gefin er sú ástæða að of fá smit séu í samfélaginu. Eru auknar forsendur fyrir slíkri rannsókn ef smitstuðull hækkar á ný?
„Nei, þetta var ekkert rætt. En þeir gáfu berlega í skyn að þeir gætu ekki svarað þeim spurningum sem þeir vildu fá svör við í ljósi þess að smit væru eins fá innanlands og raun ber vitni. En það var ekkert rætt um að taka upp þráðinn aftur ef aðstæður breytast,“ segir Þórólfur.
Eilítill blæbrigðamunur var á svörum Þórólfs og Kára Stefánssonar eftir fundinn með Pfizer í gær. Þórólfur sagði litlar líkur á því að rannsóknin yrði framkvæmd hérlendis en Kári talaði um að ekkert yrði af þessu.
„Það er náttúrlega ekki komið formlegt svar frá þeim ennþá. Þeir sögðust ætla að gefa okkur endanlegt svar eftir nokkra daga. En það var býsna ljóst í þessum viðræðum í gær að það væru litlar líkur á þessu,“ segir Þórólfur.
Þórólfur segir að nú beri að líta á þann jákvæða árangur sem náðst hefur bæði innanlands og á landamærunum. Hann hefur haft orð á því að herða beri aðgerðir á landamærunum en til þess að svo mætti verða þurfti að samþykkja ný sóttvarnarlög. Það hefur nú verið gert. „Það eru veikleikar á landamærunum og við erum að skoða það hvernig við getum komið í veg fyrir þá. Það er í það minnsta fínt að það séu komnar lagalegar heimildir,“ segir Þórólfur.
Bendir hann á að hann hafi þegar lagt það til við ráðherra að krefja beri fólk um neikvætt sýnavottorð auk þess að fólk þurfi að fara í farsóttarhús. Hefur vandamálið snúið að fólki sem skráir sig ekki rétt við komu til landsins. Fyrir vikið eru dæmi um að ekki hafi tekist að hafa upp á fólki sem fær jákvætt úr sýnatöku á landamærunum.
Núverandi landamærafyrirkomulag gildir til 1. maí en Þórólfur segir vel koma til greina að breyta því áður en sú dagsetning rennur upp.