Fá 35 milljónir vegna vanrækslu læknis

Fjölskylda konu, maður og fjögur börn, hafa verið dæmdar bætur …
Fjölskylda konu, maður og fjögur börn, hafa verið dæmdar bætur að andvirði 35 milljóna vegna læknamistaka sem leiddu til andláts konunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að kvensjúkdómalækni og Vátryggingafélagi Íslands beri að greiða ungum manni og fjórum börnum hans um 35 milljónir króna í bætur vegna andláts konu mannsins og móður barnanna fjögurra.

Umræddur kvensjúkdómalæknir gerðist sekur um stórfelld læknamistök við greiningu á leghálssýni úr konunni sem lést úr leghálskrabbameini í mars árið 2017.

Konan hafði tvívegis, áður en hún fór í skoðun hjá kvensjúkdómalækninum, leitað til lækna vegna kviðverkja og óþæginda frá kvenlíffærum, fyrst 23. febrúar 2015 og síðan 10. mars sama ár.

Við seinni heimsóknina skoðaði læknir legháls konunnar og fann fyrir óreglulegri fyrirferð sem væri aum við þreifingu. Lækninn grunaði að mögulega gæti verið um æxli að ræða. Vísaði læknirinn þá konunni til hinnar stefndu og bað hana að framkvæma rannsóknir um hvort mögulega væri um æxli að ræða.

„Stórfellt gáleysi“

Hin stefnda gerði rannsóknir þann 12. mars 2015 og tók sýni vegna þess að hún taldi sig sjá ummerki um slímkirtil eða blöðru á fremri vör í leghálsi konunnar, en slíkar blöðrur eru algengar en hættulausar og ótengdar krabbameinum.

Krabbameinsfélaginu voru send sýni úr rannsókninni og beiðni send um flýtisvar. Við rannsókn á sýninu var staðreynt að ekki hafi sést vísbendingar um frumubreytingar og sýnið því eðlilegt í þeim skilningi. Hins vegar hafi sést blóð og bólgubreytingar ásamt því að grunur léki á um HPV-veirusmit. Fyrir dómi kannaðist stefnda ekki við að hafa verið greint frá þessu.

Konan fann í desember 2015 enn fyrir áframhaldandi og versnandi einkennum og leitaði til sama læknis og vísaði henni til stefndu í mars sama ár.  Þá var hlutast til um að hún yrði rannsökuð af sérfræðingi Landspítalans í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp sem skoðaði konuna í tvígang.

Við seinni skoðun, þann 17. desember, kom í ljós fyrirferð á neðri vör leghálsins sem sérfræðingurinn mat að væri 5 cm að stærð. Vefjasýni var tekið og sent til rannsóknar á meinafræðideild Landspítalans sem staðfesti að um krabbamein hafi verið að ræða. Konunni var greint frá þessu 30. desember 2015.

Kvartaði til landlæknis

Konunni var því vísað til kvennadeildar Landspítalans til frekari greiningar og meðferðar og var hún lögð inn 4. janúar 2016. Þar staðreyndist að æxlið í leghálsinum var 6,9 cm að stærð og bókað var í sjúkraskrá að ósennilegt væri að æxlið hefði stækkað svo mikið frá því að stefnda rannsakaði konuna.

Konan kvartaði til landlæknis 4. apríl 2016 vegna meintrar vanrækslu og mistaka af hálfu hinnar stefndu sem leiddu til þess að greining hefði tafist. Landlæknir komst að þeirri niðurstöðu í janúar 2017 að stefnda hefði vanrækt læknisskyldur sínar og að skoðun hennar á konunni hefði verið ófullnægjandi.

Konan lést 11. mars 2017 og skildi eftir sig mann og fjögur börn.

VÍS hafnaði bótaskyldu

Fjölskylda konunnar gerði kröfu í starfsábyrgðartryggingu sem félag í eigu læknisins hafði keypt hjá Vátryggingafélagi Íslands (VÍS). VÍS hafnaði bótaskyldu og skaut fjölskyldan málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Nefndin kvað upp úrskurð í málinu 20. nóvember 2018 og komst að þeirri niðurstöðu að stefnendur ættu rétt á bótum úr sjúklingatryggingu stefndu hjá VÍS. VÍS undi ekki dómnum og því höfðaði fjölskyldan mál á hendur félaginu.

Héraðsdómur komst svo að niðurstöðu sinni í gær og dæmdu stefndu og VÍS til að greiða fjölskyldu konunnar, manni og börnum, samtals 35 milljónir króna í bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert