Alls hafa 134 þúsund manns fullnýtt ferðagjöf stjórnvalda og 23 þúsund til viðbótar nýtt hana að hluta. Þá hafa 38 þúsund sótt gjöfina án þess að nýta hana, og um 92 þúsund ferðagjafir eru enn ósóttar.
Ferðagjöfinni var hleypt af stokkunum síðasta sumar. Geta allir sem búsettir eru á Íslandi og fæddir árið 2002 eða fyrr sótt gjöfina, 5.000 króna inneign sem nýta má hjá fyrirtækjum í veitinga- og þjónustustarfsemi. Gjöfin átti upphaflega að gilda til ársloka 2020, en gildistíminn var síðar framlengdur til 31. maí 2021.
Eins og sjá má á mælaborði ferðaþjónustunnar hafa þiggjendur ferðagjafarinnar þegar notað um 761 milljón króna. Því til viðbótar eru um 190 milljónir ónýttar frá þeim sem ekki hafa enn notað gjöfina að nokkru leyti og 24 milljónir frá þeim sem hafa nýtt gjöfina að hluta.
Þar af leiðir að þeir sem hafa nýtt gjöfina að hluta eiga að meðaltali um þúsund krónur ónýttar. Ætla má að margir hafi nýtt gjöfina að langmestu leyti, en eigi kannski nokkra hundraðkalla ónýtta sem þeir hirða ekki um að hafa fyrir að nýta.
Nýting gjafarinnar er enn sem komið er talsvert undir væntingum, en þegar frumvarp um gjöfina var samþykkt á Alþingi í júní kom fram að áætlaður kostnaður væri um 1,5 milljarðar króna. Inni í þeirri tölu hefur þó sennilega einnig verið kostnaður við uppsetningu kerfisins enda ljóst að samanlagt verðmæti ferðagjafar myndi ekki ná 1,5 milljörðum þótt allir, sem rétt eiga, myndu fullnýta gjöfina.
Stærstur hluti nýttrar ferðagjafar, eða um 36%, hefur farið í veitingar, 26% í afþreyingu, 26% í gistingu og 12% í samgöngur.
Þau tíu fyrirtæki sem hafa fengið mest í sinn hlut úr ferðagjöfinni eru:
Þrátt fyrir að vera ætlað að hvetja fólk til ferðalaga, hefur stærstum hluta ferðagjafarinnar verið varið hjá fyrirtækjum með aðsetur á höfuðborgarsvæðinu, þar sem flestir landsmenn búa.
Skipting ferðagjafar milli landshluta er eftirfarandi:
Því til viðbótar hefur 145 milljónum króna verið eytt hjá fyrirtækjum sem starfa í fleiri en einum landshluta, eða sem nemur 19% af heildarfjárhæð ferðagjafar.