Leit verður haldið áfram

John Snorri Sigurjónsson.
John Snorri Sigurjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki hefur tekist að leita á K2 það sem af er degi vegna slæms veðurs á fjallinu. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Pakistan er leitarteymi tilbúið til leitar og lagt verði af stað um leið og veðrið skánar.

Á morgun er spáð 41 stigs frosti en minni vind en í dag. Ekki hefur verið hægt að leita síðan á mánudag en þá var leit hætt vegna lélegs skyggnis og slæms veðurs. Það sama var uppi á teningnum í gær en þá var mjög hvasst og snjókoma á K2.

Pakistanski fjallgöngu- og skíðamaðurinn Karim Shah Naziri sagði í gær að herinn myndi senda C-130 herflugvélar á vettvang í dag en þær geta flogið í um 8 þúsund metra hæð, hærra en þyrlur hersins.

Ekkert hefur spurst til Johns Snorra Sig­ur­jóns­sonar, Muhammad Ali Sa­dp­ara og Juan Pablo Mohr frá því á föstudag. Fjölskyldur þeirra og vinir hafa hins vegar ekki gefið upp alla von um að þeir finnist heilir á húfi enda allir sterkir og þrautþjálfaðir fjallgöngumenn. 

Lína Móey eiginkona Johns Snorra segir á Facebook í gærkvöldi að leit standi enn yfir og hún sé ekki búin að gefast upp. Allir sem þekkja John Snorra viti yfir hvaða styrk hann býr. 

Þekktir fjallgöngumenn eins og Fazal Ali og Jalal frá Shimshal, Imtiaz Hussain og Akbar Ali frá Skardu, eins Rúmeninn Alex Găvan, sjerparnir Nazir Sabir og Chhang Dawa auk fleiri fjallgöngumanna hjá Seven Summits Treks hafa tekið þátt í leitinni að þremenningunum.

Nú eru starfsmenn Seven Summits Treks að yfirgefa grunnbúðir K2 þar sem ekki verður reynt frekar að ná á tind fjallsins á þessum vetri. 

Þrátt fyrir að grunnbúðir séu að tæmast verður leit haldið áfram. Þeir Imtiaz Hussain og Akbar Ali voru staddir í búðum 2 þar sem þeir biðu af sér slæmt veður. Þeir hafa nú snúið aftur í grunnbúðir en þeir vonuðust til þess að geta klifið Bottleneck, ísvegginn þar sem síðast sást til þremenningnanna. Að minnsta kosti leita að vísbendingum um þremenningana, segir í færslu á vef fjallgöngumannsins Alan Arnette. Jafnframt verða starfsmenn leiðangurs Johns Snorra og Ali áfram í grunnbúðum á meðan leit stendur yfir. 

Ráðherra ferðamála, Raja Nasir Ali Khan, segir að herinn muni gera allt sem í hans valdi stendur til þess að halda leit áfram. Þrátt fyrir að hlé hafi verið gert á leitinni þá er henni hvergi nærri lokið. 

Í fréttatilkynningu frá teyminu sem tengist fjölskyldu og vinum þremenninganna kemur fram að unnið sé með upplýsingar úr búnaði sem þremenningarnir voru með sér, það er frá Garmin, Thuraya og Inmarsat. Eins sé unnið með upplýsingar frá fjallgöngufólki sem hitti þá og var í samskiptum við þá til þess að staðsetja nánar hvar þeir geta verið. 

Unnið sé með geimvísindastofnun Íslands að því að nota SAR upplýsingar í stað SAT. Þetta hafi aldrei verið reynt áður við leit og björgun. Með því er hægt að skoða hvern þumlung fjallsins sama hvernig veðrið er. 

Sjá nánar hér

Vefur Alan Arnette

Dawn.com

 

 

 

 





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert