„Við erum með mörg járn í eldinum en höfum enn ekkert fast í hendi,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Samtökin eru í samskiptum og viðræðum við allmarga áhugasama aðila um eign sína, Hótel Sögu við Hagatorg. Þar á meðal eru innlendir og erlendir fjárfestar sem hafa áhuga á að reka hótelið áfram, fyrirtæki á heilbrigðissviði sem kanna möguleika á að breyta hótelinu í hjúkrunarheimili og Háskóli Íslands sem sýnt hefur áhuga á að taka hótelið í þágu háskólans og nemenda hans.
Gunnar segir að erlendu aðilarnir vilji skoða eignina áður en þeir ganga til samninga en erfitt sé við það að eiga vegna aðgerða á landamærum í þágu sóttvarna. Segir Gunnar að möguleikar á áframhaldandi rekstri Hótels Sögu sveiflist með væntingum um þróun faraldursins, bólusetningar og opnun landamæra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.