Móðir Aldísar Schram, Bryndís Schram, sagðist aldrei hafa komið að nauðungarvistun dóttur sinnar. Miðað við dómsskjöl sem lögmaður Aldísar framvísaði skrifaði hún þó að minnsta kosti einu sinni undir beiðni um nauðungarvistun. Bryndís segir ekki trúa neinum ásökunum á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni.
Bryndís gaf skýrslu fyrir dómi í dag í máli eiginmanns Bryndísar, Jóns Baldvins Hannibalssonar, gegn Aldísi Schram dóttur þeirra, Sigmari Guðmundssyni fréttamanni og Ríkisútvarpinu.
Skýrsluna gaf Bryndís í gegnum síma. Hún lýsti því að Aldís hefði verið mjög veik á geði á tímabili. Hún sagðist einungis einu sinni hafa heimsótt hana á geðdeild meðan á þeim veikindum stóð og sagði erfitt að tala um þá reynslu.
„Ég var bara búin að tapa dóttur minni, mér fannst eins og ég væri búin að missa hana og ég myndi aldrei nálgast hana aftur, ég gæti það ekki,“ sagði Bryndís.
Hún sagði að hún hefði ekki heyrt af meintum sifjaspellum Jóns Baldvins fyrr en árið 2019 þegar greint var frá meintum kynferðisbrotum Jóns Baldvins á hendur Aldísi í Morgunútvarpinu á Rás tvö.
Hún sagðist ekki trúa slíkum ásökunum né öðrum ásökunum um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi af hálfu Jóns Baldvins, ef „eitthvert sannleikskorn“ væri í slíkum ásökunum sagði Bryndís að hún væri löngu búin að slíta sambandi við slíkan „ræfil og öfugugga“.
„Þetta er svo svívirðilegt, þetta er svo niðurlægjandi,“ sagði Bryndís sem sagðist aldrei hafa staðið eiginmann sinn að neinum ótrúnaði. Um ásakanir um barnaníð sagði Bryndís:
„Þetta er eitthvert ljótasta orð sem er til í íslenskri tungu, það nálgast það að vera morð. Slíkur maður ætti að vera í fangelsi eða horfinn af sjónarsviðinu. [...] Ef eitthvað slíkt hefði gerst á mínu heimili hefði ég gengið út og aldrei látið sjá mig framar.“
Bryndís sagði að ásakanir á hendur eiginmanni hennar kæmu úr „sjúkum huga“ Aldísar. Að ef fólk ætlaði að trúa ásökunum á hendur honum þyrfti það líka að trúa því sem Aldís hefði sagt um móður sína, að hún væri „oftast sauðdrukkin og [gripi] utan um kynfæri ungra karla á fylleríum“.
„[Þessar ásakanir] koma allar úr sama sjúka huganum frá dóttur minni sem er veik og leitar ekki til læknis,“ sagði Bryndís.
Tugir kvenna hafa ásakað Jón Baldvin um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Jón Baldvin sagði í réttarhöldunum fyrr í dag að hann teldi að ásakanirnar eiga rætur að rekja til meintrar geðveiki Aldísar. Spurð hvort hún teldi einnig að Aldís stæði með einhverjum hætti að ásökunum kvennanna sagði Bryndís að hún gæti vel trúað því, sérstaklega í ljósi þess að Aldís hefði skrifað leikrit um foreldra sína þar sem sambærilegar lýsingar hefðu komið fram.
Sumarið 2019 stefndi Jón Baldvin dóttur sinni Aldísi Schram vegna ummæla hennar í Morgunútvarpinu 17. janúar sama ár. Jón Baldvin gerir ekki fjárkröfur á hendur Aldísi heldur krefst þess að ummælin, níu úr Morgunútvarpinu og ein af Facebook, verði dæmd dauð og ómerk.
Sigmari er stefnt fyrir fern ummæli úr þættinum 17. janúar en Jón Baldvin krefur hann um 2,5 milljónir króna.
Ummæli sem Jón Baldvin fer fram á að dæmd verði dauð og ómerk eru eftirfarandi:
Morgunútvarp, Rás 2, 17. janúar 2019, ummæli viðhöfð af Aldísi:
Facebook, 5. febrúar 2019, höfundur Aldís:
Rás 2, 17. janúar 2019, höfundur og flytjandi Sigmar (Aldís til vara):