Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett drög að frumvarpi um breytingar á barnaverndarlögum í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum og tillögum.
Þetta kemur fram á vef ráðuneytisins.
Fram kemur, að helstu breytingar sem lagðar séu til í frumvarpinu eru að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verði lagðar niður. Í stað barnaverndarnefndar verði starfrækt barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar á vegum sveitarfélaga. Þannig verði lögð áhersla á fagþekkingu innan barnaverndarþjónustu.
„Barnaverndarþjónusta ber ábyrgð á almennum ákvörðunum, stuðningi og ráðstöfunum í barnavernd en aðkomu umdæmisráðs þarf í tilteknum ákvörðunum. Í umdæmisráðum sitja lögfræðingur, félagsráðgjafi og sálfræðingur. Lagt er til að skipunartími umdæmisráða falli ekki að kjörtímabilum sveitarstjórna og að ráðin verði skipuð til fimm ára í senn.
Þá er lagt til að barnaverndarumdæmi séu almennt ekki fámennari en 6.000 íbúar, þó geti sveitarfélög fengið undanþágu frá reglum um lágmarksíbúafjölda ef þau sýna fram á lágmarksfagþekkingu á barnavernd. Er þetta gert til þess að skapa forsendur fyrir faglegu barnaverndarstarfi í umdæmum landsins og tryggja að börn njóti faglegrar sérþekkingar,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að ráðherra hafi skipað starfshóp í október 2020 sem hafi verið falið að fullmóta tillögur að framtíðarskipulagi barnaverndarþjónustu sveitarfélaga í tengslum við heildarendurskoðun barnaverndarlaga, en frá haustinu 2018 hefur verið unnið markvisst að umbótum í þágu barna í samvinnu Stjórnarráðsins, þingmannanefndar um málefni barna og Sambands íslenskra sveitarfélaga með aðkomu sérfræðinga í barnavernd.