Ráðgjafarstofa innflytjenda opnuð

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, Joanna Marcinkowska, verkefnisstjóri ráðgjafarstofu …
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, Joanna Marcinkowska, verkefnisstjóri ráðgjafarstofu innflytjenda, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, við formlega opnun ráðgjafarstofunnar í dag. Ljósmynd/Félagsmálaráðuneytið

Ráðgjafarstofa innflytjenda var formlega opnuð í dag á Laugavegi 116. Þar geta innflytjendur sem setjast að hér á landi fengið upplýsingar um allt sem við kemur réttindum þeirra og skyldum sem nýbúar á Íslandi. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram þingsályktunartillögu árið 2018 um stofnun stofunnar og í kjölfarið var félagsmálaráðuneytinu falin stofnun hennar.

„Ég sat á kaffihúsi í Kaupmannahöfn vorið 2018 og velti því fyrir mér hvað ég myndi eiginlega gera ef ég væri nýfluttur þangað. Hvert myndi ég leita, hvar gæti ég fundið upplýsingar um það sem ég þyrfti að vita? Ég fattaði að ég vissi ekki neitt,“ segir Kolbeinn í samtali við mbl.is.

Kolbeinn segist hafa kafað ofan í skýrslur og álit sérfræðinga í málaflokknum þegar hann kom heim til Íslands og þá kviknaði hugmyndin um ráðgjafarstofu innflytjenda.

Ráðgjafastofa fyrir innlytjendur opnuð Sumir dagar eru betri en aðrir. Í dag fékk ég að vera viðstaddur formlega opnun á...

Posted by Kolbeinn Óttarsson Proppé on Miðvikudagur, 10. febrúar 2021

Að erlendri fyrirmynd

Ráðgjafarstofa innflytjenda er tilraunaverkefni á vegum félagsmálaráðuneytisins sem Kolbeinn segist sannfærður um að muni sanna sig sem þarfur vettvangur hér á landi. Fyrirmyndir að ráðgjafarstofunni eru til víða, meðal annars í Danmörku, Portúgal og Kanada og er þá gjarnan talað um slíkt sem first-stop-shop.

„Þetta er tilraunaverkefni og til að byrja með starfa þarna fimm manns. Það fengust fjármunir til þessa verkefnis í gegnum ráðuneytið, þá sem sérstök framlög vegna faraldursins, en það þurfti virkilega að bæta upplýsingagjöf til þeirra sem tala litla eða enga íslensku.

Og ég vil fá að hrósa félagsmálaráðuneytinu fyrir að taka vel í þessa hugmynd og vinna gott starf við að koma þessu á laggirnar og leyfa mér að taka þátt í undirbúningsferlinu.“

Sannfærður um velgengni verkefnisins

Innflytjendum er bæði boðið að líta við á ráðgjafarstofunni að Laugavegi 116, ræða við ráðgjafa gegnum síma eða í gegnum netspjall á vefsíðunni newiniceland.is. Þar er í boði netspjall á sjö tungumálum; íslensku, ensku, pólsku, spænsku, portúgölsku, litháísku og arabísku.

„Ég er sannfærður um að við munum sjá að þetta sé rétta leiðin til upplýsingagjafar fyrir innflytjendur. Það mun sýna sig og sanna að þetta sé rétt hugmyndafræði þegar kemur að málaflokknum og ég spái því að bæði sveitarfélög og einstaka stofnanir munu koma að þessu verkefni og taka þátt í kostnaðinum,“ segir Kolbeinn. Hann spáir því að með tíð og tíma opni fleiri útibú ráðgjafarstofu innflytjenda og nefnir Reykjanesbæ sérstaklega í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka