„Mér hefur fundist þetta liggja svolítið í loftinu,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um framboð Helgu Guðrúnar Jónasdóttur til formanns stéttafélagsins. Kjörstjórn tilkynnti í hádeginu að kosningar til formanns fara fram 8. til 12. mars næstkomandi.
Ragnar hefur verið formaður VR í fjögur ár en hann segist hálfpartinn hafa vonast til þess að geta lagt störf sín í dóm félagsmanna og sömuleiðis sótt umboð þeirra til áframhaldandi góðra verka.
„Ég fagna því að fá tækifæri til þess,“ segir Ragnar sem skilaði inn sínu framboði til formanns í hádeginu.
Helga sagði í samtali við mbl.is að formanni VR beri að nota styrkinn sem fylgir því að vera formaður öflugasta stéttarfélags landsins til að bæta kjör félagsmanna en ekki eigin stöðu á flokkspólitískum vettvangi.
„Ragnar er flottur kall og hefur alveg sínar skoðanir sem hann hefur rétt á. Það er hins vegar spurning hvort hann sé á réttum vettvangi. Mér finnst að hann eigi frekar að fara með þessa baráttu í flokkspólitík þar sem hún á heima,“ sagði Helga.
„Það er hennar skoðun. Ég held að ég sé á réttum stað og tel að okkur hafi gengið mjög vel. Okkur hefur gengið vel að efla traust til verkalýðshreyfingarinnar,“ segir Ragnar og nefnir bæði VR og ASÍ í því samhengi.
Spurður hvort hann sé sigurviss segist Ragnar leggja verk sín og framhaldið í hendur félagsmanna sem kjósa í kosningunum.
„Ég tel mig eiga ágætis mögulega,“ segir Ragnar og heldur áfram:
„Ég legg mínar áherslur fyrir félagsmenn og ef þeir ákveða að hag sínum og stefnu félagsins sé betur borgið annars staðar fer ég sáttur frá borði.“