Sérrýmin lykilatriði fyrir reksturinn

Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þótt borgarlínuverkefnið sé að stórum hluta til fjárfestingaverkefni, þá er það líka rekstrarverkefni sem þarf að passa ofan á innviðina. Gert er ráð fyrir að nýtt leiðarkerfi Strætó taki gildi á sama tíma og fyrstu leggir borgarlínu verða klárir. Þetta segir framkvæmdastjóri Strætó, en í tengslum við nýja skýrslu um drög að framkvæmdum við fyrstu lotu borgarlínu, sem kynnt var í síðustu viku, var greint frá uppfærslu á vinnu við nýtt leiðarnet sem og uppfærslu á rekstraráætlun.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir í samtali við mbl.is að undanfarin ár hafi vinna átt sér stað við að uppfæra nýtt leiðarnet fyrirtækisins. Það hafi tekið breytingum samhliða vinnu við borgarlínu, en Jóhannes segir að borgarlínan og Strætó verði rekin saman sem almannasamgöngukerfi frá og með 2025 þegar fyrsti áfangi borgarlínu verður klár.

Nýtt leiðarkerfi á sama tíma og borgarlína fer af stað

Fyrstu borgarlínuleiðirnar munu í raun taka við af leiðum 1 og 6 hjá Strætó sem eru stofnleiðir. Jóhannes segir að talað hafi verið fyrir því undanfarin ár að koma þurfi upp fleiri sérakreinum, auka tíðni ferða og stytta ferðatíma. Með nýju skýrslunni sé verið að taka það sem sagt hafi verið og setja það í skýrsluform. Aðeins hafi verið komið upp um 20 km af sérakreinum hingað til og málið verið í nokkurri biðstöðu, en með borgarlínuverkefninu segir Jóhannes að það muni breytast til muna. Þannig er gert ráð fyrir um 70% af sérrými í fyrsta áfanga verkefnisins.

Samkvæmt töflu sem finna má í skýrslunni er horft til þess að tíðni bæði stofnleiða og almennra leiða muni aukast talsvert með komu borgarlínu. Þá á þjónusta borgarlínuvagna að hefjast áður og enda síðar en nú er.

Áætlað er að auka tíðni vagna borgarlínunnar talsvert miðað við …
Áætlað er að auka tíðni vagna borgarlínunnar talsvert miðað við núverandi leiðarkerfi Strætó og er miðað við þessa tíðni á stofnleiðum og almennum leiðum í nýju leiðarplani. Tafla/Borgarlínan

Rekstrarframlag verði óbreytt þrátt fyrir aukna tíðni og fleiri vagna

Þrátt fyrir fyrirheit um fjölgun ferða og fleiri vagna er ekki gert ráð fyrir að framlag hins opinbera til reksturs Strætó og borgarlínu muni þurfa að aukast, að því er fram kemur í skýrslunni. Það eigi þó ekki við um árið 2024, þegar framlagið geti þurft að vera um 1-2 milljörðum meira.

Spurður út í hvernig þetta reikningsdæmi gangi upp segir Jóhannes að með rekstrarframlaginu sé átt við rekstrartekjur að frádregnum rekstrargjöldum. Þannig sé gert ráð fyrir auknum rekstrartekjum með fjölgun farþega. Hins vegar segir hann að sérakreinar muni skipta lykilmáli við að halda kostnaði niðri.

Á þessu korti má sjá þá leið sem áætlað er …
Á þessu korti má sjá þá leið sem áætlað er að fara með borgarlínuna frá Ártúnshöfða niður í miðbæ og svo yfir Fossvog í Hamraborg. Ekki hefur enn verið útfærð nákvæm staðsetning í Vogahverfi, en enn er unnið að skipulagi þess hverfis auk þess sem mið þarf að taka af áætluðum framkvæmdum við Sæbraut í stokk. Kort/Borgarlínan

Vögnum þarf ekki að fjölga í fullu samræmi við aukna tíðni

Bendir Jóhannes á að í dag séu um þrettán vagnar á leið 1 á mesta annatíma og tólf vagnar á leið 6. Segir hann að í líkönum sem Strætó vinni með sé t.d. horft til þess að í nýju leiðarkerfi gætu verið 21-22 vagnar á leið 1 á mesta annatíma og 19-20 vagnar á leið 6. Það er fjölgun um 60-70%, en þrátt fyrir það segir Jóhannes að hægt verði að auka tíðni vagnanna um 100%.

Þessi munur fæst að hans sögn með sérrýmunum. Í dag þurfi aukinn tíma til að keyra leiðirnar vegna umferðar og það kosti. „Þegar komið er meira sérrými þurfum við ekkert endilega sömu hlutfallslegu fjölgun af vögnum eins og tíðnin eykst því vagninn kemst hraðar yfir,“ segir Jóhannes og bætir við að breytingar á ljósastýringum sem gefi strætisvögnum forgang skipti líka gríðarlegu máli, en það atriði er hluti af samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og ríkisins. „Það er ekki hægt að setja samasemmerki á milli aukinnar tíðni og aukins kostnaðar,“ segir Jóhannes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert