Sex milljarðar greiddir í tekjufallsstyrki

Útgreiðsla tekjufallsstyrkja hófst í janúar og hafa sex milljarðar þegar …
Útgreiðsla tekjufallsstyrkja hófst í janúar og hafa sex milljarðar þegar verið greiddir út. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meira en þúsund rekstraraðilar fengu í síðasta mánuði greidda tekjufallsstyrki vegna kórónuveirufaraldursins, og nemur samanlögð fjárhæð um sex milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Lög um tekjufallsstyrki voru samþykkt á Alþingi í nóvember 2020, en rétt á styrknum eiga atvinnurekendur og sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40% samdrætti í tekjum sem rekja má til faraldursins. Byrjað var að greiða styrkina út í janúar, en um 85% umsókna hafa nú verið afgreidd að því er segir í tillkynningu.

Lokunarstyrkir, sem greiddir eru fyrirtækjum sem þurfa að gera hlé á starfsemi sinni vegna sóttvarnareglna, hafa numið um 1,9 milljörðum króna. Þar af voru um 950 milljónir greiddar vegna lokana í fyrstu bylgju faraldursins, 24. mars til 4. maí, 53 milljónir vegna lokana milli 4. maí og 25. maí, og 872 milljónir vegna lokana frá 18. september. 

Þá hafa 940 stuðningslán, að fjárhæð 9,2 milljarðar króna, verið afgreidd. Aðeins hafa hins vegar sjö brúarlán verið veitt, fyrir um 2,6 milljarða króna.

Færri á hlutabótum, fleiri atvinnulausir

Atvinnulausum hefur fjölgað jafnt og þétt frá því kórónuveirufaraldurinn hófst, og eru nú um 21.800 manns án atvinnu í landinu. Þeim sem nýta hlutabótaleið stjórnvalda hefur þó fækkað skarpt frá því þegar mest var í sumar og eru nú um 4.600 samanborið við 32.800 þegar mest lét í apríl í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert