Stillt verður upp á lista Viðreisnar í fimm kjördæmum af sex hið minnsta, fyrir alþingiskosningar í september.
Á mánudag var tekin ákvörðun um uppstillingu í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Kraganum og Suðurkjördæmi og í dag tilkynnti landshlutaráð Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi að sama leið yrði farin þar.
Enn á eftir að taka ákvörðun um val á lista í Norðausturkjördæmi, en varla er við öðru að búast en að þar verði einnig stillt upp. Frá því Viðreisn var stofnuð árið 2016 hefur flokkurinn boðið fram til tvennra þingkosninga og í báðum tilvikum stillt upp á alla sína lista. Þá var sömu aðferð beitt við borgarstjórnarkosningar vorið 2018.
Viðreisn hefur fjóra menn á þingi: Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Jón Steindór Valdimarsson í Kraganum, Hönnu Katrínu Friðriksson í Reykjavíkurkjördæmi suður og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur í Reykjavíkurkjördæmi norður. Öll sækjast þau áfram eftir þingmennsku.
Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Ísafirði, sækist eftir oddvitasæti flokksins í Norðvesturkjördæmi, auk þess sem Benedikt Jóhannesson, stofnandi flokksins, sækist eftir því að leiða lista einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þá er fastlega búist við að Daði Már Kristófersson, nýkjörinn varaformaður flokksins, sækist eftir sæti á lista.