Tæplega 19% Reykvíkinga nota rafhlaupahjól eitthvað og tæp 6% nota þau einu sinni í viku eða oftar. Notkunin er mest í aldurshópnum 18-24 ára og virkustu notendurnir eru búsettir í Háaleiti/Bústöðum.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Gallup fyrir Reykjavíkurborg.
Algengast er að notendur rafhlaupahjóla noti þau í að ferðast til og frá vinnu og koma þau því í stað einkabíla í ákveðnum ferðum.
Rafhlaupahjólin eru að sýna sig sem alvöruvalkostur í samgöngum en 43,5% þeirra sem nota rafhlaupahjól fara færri ferðir með einkabíl en áður skv. könnuninni. Fólk notar því hjólin í meira en frístundaferðir, þótt einnig sé vinsælt að nota þau í ferðir til og frá veitingastöðum, til vina og ættingja og einnig til útréttinga, segir á vef borgarinnar.
Könnunin var gerð af Gallup fyrir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar á tímabilinu 18. nóvember til 14. desember 2020. Könnunin var send á samtals 2.700 Reykvíkinga 18 ára og eldri í nokkrum spurningavögnum sem skilaði rúmlega 1.400 svörum.
Nánar má skoða niðurstöður hér.