Tíu bækur hlutu tilnefningu

Tilkynnt var í dag hvaða tíu höfundar eiga möguleika á …
Tilkynnt var í dag hvaða tíu höfundar eiga möguleika á að hljóta Viðurkenningu Hagþenkis. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynnt var fyrr í dag hvaða tíu bækur væru tilnefndar til Viðurkenningar Hagþenkis, félags höfunda fræðirita og kennslugagna, fyrir árið 2020. Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn í mars. Verðlaunin nema 1.250.000 krónum.

Hagþenkir hefur frá 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Árið 2006 var tekin upp sú nýbreytni að tilnefna tíu höfunda og bækur er til greina koma. Viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum stendur að valinu. Ráðið skipa Auðunn Arnórsson, Árni Einarsson, Helga Birgisdóttir, Kolbrún S. Hjaltadóttir og Lára Magnúsardóttir.

Eftirfarandi höfundar og bækur eru tilnefnd í stafrófsröð höfunda. Með fylgir umsögn viðurkenningarráðsins:

  • Ásdís Lovísa Grétarsdóttir og Erna Jessen. Námsefni í dönsku á grunnskólastigi. Menntamálastofnun og Námsgagnastofnun. „Heildstætt og vandað námsefni í dönsku. Metnaðarfullt og fjölbreytt höfundarverk þar sem margra ára samstarf tveggja reynslumikilla kennara nýtur sín.“
  • Bergljót Soffía Kristjánsdóttir. Fræðaskjóða. Bókmenntafræði fyrir forvitna. Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands. Sæmundur. „Ítarleg og skemmtileg umfjöllun um bókmenntafræði. Hugtök eru skýrð á nýstárlegan hátt með mýmörgum dæmum. Mikill fengur fyrir áhugafólk um bókmenntir.“
  • Gísli Pálsson. Fuglinn sem gat ekki flogið. Mál og menning. „Læsileg og þörf bók þar sem hugmyndin um útrýmingu og endalok dýrategundar er skoðuð frá óvenjulegu sjónarhorni.“
  • Gunnar Þór Bjarnason. Spænska veikin. Mál og menning. „Vel skrifuð bók þar sem stjórnmálum á örlagatímum er fimlega fléttað saman við sögur einstakra manna og fjölskyldna með vandaðri sagnfræði.“
  • Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring. Hestar. Angústúra. „Teflt er saman gömlum sögum og nýjum, skemmtilegum texta og líflegum myndum í bók sem bæði fræðir og gleður.“
  • Jón Hjaltason. Fæddur til að fækka tárum. Káinn. Ævi og ljóð. Völuspá útgáfa. „Kveðskapurinn talar sínu máli í hlýlegri frásögn af ævi drykkfellda hagyrðingsins og stemningin fyrir skáldskap í daglegu lífi Vestur-Íslendinga verður næstum áþreifanleg.“
  • Kjartan Ólafsson. Um Kommúnistaflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Draumar og veruleiki. Stjórnmál í endursýn. Mál og menning. „Merk samantekt á sögu ysta vinstrisins í íslenskum stjórnmálum á 1930-1968 frá sjónarhóli manns sem sjálfur var í innsta hring þeirrar hreyfingar.“
  • Kristján Leósson og Leó Kristjánsson †. Íslenski kristallinn sem breytti heiminum. Mál og menning. „Fróðlegt ferðalag um eðlisfræðisögu ljóssins og mikilvægt hlutverk silfurbergs frá Íslandi í henni.“
  • Pétur H. Ármannsson. Guðjón Samúelsson húsameistari. Hið íslenska bókmenntafélag. „Vandað og ítarlegt yfirlitsrit um ævi og verk Guðjóns Samúelssonar. Verðugur minnisvarði um manninn sem mótaði byggingarlist og skipulagsmál hins nýsjálfstæða Íslands.“
  • Sigurður Ægisson. Íslensku fuglarnir og þjóðtrúin. Bókaútgáfan Hólar. „Ríkulega myndskreytt og frumlegt verk um íslenska varpfugla með margvíslegum fróðleik, ljóðum og frásögnum af sambúð náttúru og manns.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert