Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) vill að bótaréttur slökkviliðsmanna sé tryggður fái þeir vissar tegundir krabbameina. Þannig að krabbamein hjá slökkviliðsmönnum verði skilgreint sem atvinnusjúkdómur.
Landssambandið kom sjónarmiðum sínum á framfæri í umsögn sinni um frumvarp frá heilbrigðisráðherra til laga um breytingu á lögum um slysatryggingar almannatrygginga nr. 45/2015 (atvinnusjúkdómar, miskabætur o.fl.).
„Á Íslandi eru starfandi um 1.000 slökkviliðsmenn, af þeim eru rúmlega 400 sem eru í fullu starfi og sinna þá flestir einnig sjúkraflutningum. Þeir einstaklingar sem sinna þessum störfum eru útsettir fyrir starfsumhverfi sem vísindalega hefur verið sannað að auki líkur á heilsubresti, þá sérstaklega ákveðnum gerðum krabbameina. Slökkviliðsmenn eru allt að tvöfalt líklegri til að fá ákveðnar gerðir krabbameina,“ segir í umsögninni.
Bendir LSS á vísindalegar rannsóknir sem styðja mál þeirra.
„Á vef Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ILO er vísað í ritrýnda grein úr Nature2 þar sem rýnt er í rannsóknir á atvinnutengdum krabbameinum hjá slökkviliðsmönnum. Einnig hefur Vinnuverndarstofnun Evrópu birt stóra samantekt á rannsóknum á atvinnutengdum krabbameinum. LSS skorar á stjórnvöld að rýna niðurstöður þessara rannsókna en einnig LeMasters4-rannsóknina sem inniheldur viðamikla tölfræði um einstaka þætti. Mikilvægt er að fara í vinnu við að tryggja að þeir starfsmenn slökkviliða sem greinast með krabbamein,“ segir í umsögn.