Vörður fagnar Sundabraut

Stjórn Varðar – fulltrúaráðs hverfisfélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík – hvetur …
Stjórn Varðar – fulltrúaráðs hverfisfélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík – hvetur itl að hafist verði handa sem fyrst við lagningu Sundabrautar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Varðar – fulltrúaráðs hverfisfélaga Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík – fagnar því að loks sé komin niðurstaða um staðsetningu og útlit Sundabrautar. Þetta segir í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar í kvöld.

„Allt frá árinu 1984 hefur þessi mikilvæga samgönguframkvæmd verið á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og segja má með sanni að borgarbúar séu margir hverjir orðnir langþreyttir á þessari nærri fjögurra áratuga bið. Góðir hlutir gerast þó hægt og því ber að fagna þeim tímamótum sem nú hafa orðið við skipulagningu Sundabrautar,“ segir í tilkynningunni.

Með tímamótunum er átt við nýja skýrslu sem starfshópur samgönguráðherra skilaði af sér fyrr í mánuðinum. Í henni er komist að þeirri niðurstöðu að brú yfir sundin sé hagkvæmari kostur en jarðgöng. Er áætlaður kostnaður við hana 69 milljarðar króna og ráðgert að framkvæmdir geti hafist árið 2025 og lokið um 2030.

Í ályktun Varðar er tekið undir með Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni, um mikilvægi þess að hefjast strax handa við að gera Sundabraut að veruleika. „Nú er mikilvægt að borgarstjórn og stjórnvöld bretti upp ermar og sameinist um að koma þessari mikilvægu samgönguúrbót í verk borgarbúum öllum til heilla.“

Brúin er talin munu kosta 69 milljarða króna.
Brúin er talin munu kosta 69 milljarða króna. Ljósmynd/Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert