Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir að Jarl Sigurgeirsson, formaður fulltrúaráðs flokksins í Vestmannaeyjum, ætti að hafa þyngri áhyggjur af stöðu flokksins í Vestmannaeyjum en í Suðurkjördæmi.
Eyjafréttir hafa eftir Jarli að vantrauststillaga á Pál, sem lögð var fram árið 2018, sé enn í gildi og sé raunverulegt vandamál sem taka þurfi á innan flokksins.
„Það vekur sérstakar áhyggjur hjá mér hversu margir sjálfstæðismenn lýsa yfir þungum áhyggjum af framboði Páls, þar sem fólk óttast áframhaldandi sundrungu og hefur ýmist sagst ekki geta stutt flokkinn, ekki geta unnið fyrir flokkinn eða hreinlega myndu yfirgefa flokkinn vegna þessa,“ segir Jarl í blaðinu.
Ummælin lét Jarl falla í kjölfar þess að Páll sagðist sækjast eftir endurkjöri sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
„Líklega ætti Jarl nú að hafa þyngri áhyggjur af stöðu Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, þar sem hann er formaður fulltrúaráðsins, en stöðu hans í Suðurkjördæmi. Í kjördæminu stendur flokkurinn styrkum stoðum og mælist í öllum könnunum ýmist sem sterkasta eða næststerkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Í Eyjum gegnir því miður öðru máli,“ segir Páll.
„Þar leiddi sú ákvörðun sem Jarl barðist mest fyrir til þess að Sjálfstæðisflokkurinn klofnaði, tapaði um 40% af fylgi sínu og missti meirihlutann í bæjarstjórn. Sá klofningur er enn fyrir hendi. Jarl ætti kannski að einbeita sér að því að laga þá sundrungu sem hann skapaði sjálfur í stað þess að ólmast stöðugt við að dýpka skurðinn,“ segir Páll.
Páli var vikið úr fulltrúaráði sjálfstæðisfélagsins í Vestmannaeyjum í júní 2018, skömmu eftir að kosið var til sveitarstjórnar.
Páll segir þó ekki rétt að hann hafi stutt Írisi Róbertsdóttur, oddvita klofningsframboðsins Fyrir Heimaey.
„Ég lýsti því yfir að ég myndi ekki taka opinberlega afstöðu í sveitarstjórnarkosningunum í Vestmannaeyjum eins og málum var þar háttað. Ég dró mig bara í hlé og studdi engan,“ segir Páll.