Dæmdur fyrir líkamsárás á Litla-Hrauni

Maðurinn var dæmdur fyrir líkamsárás og hótanir.
Maðurinn var dæmdur fyrir líkamsárás og hótanir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann í tólf mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og hótanir. Brotin voru framin í fangelsinu á Litla-Hrauni en maðurinn, Kristleifur Kristleifsson, situr inni vegna fyrri brota.

Maðurinn var dæmdur fyrir tvö aðskilin brot. Í maí 2019 veittist hann að samfanga sínum, ógnaði honum endurtekið með hníf og kýldi hann með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Í september hringdi hann úr fangelsinu í annan mann og hótaði honum ofbeldi ef hann hætti ekki samskiptum við tiltekinn aðila.

Sagðist hann vita hvar maðurinn byggi og að hann þekkti menn sem væru reiðubúnir til að „brjóta andlit fyrir hann“, meðan hann væri sjálfur í fangelsi.

Maðurinn játaði brot sín skýlaust en mótmælti einungis bótakröfu sem hann taldi of háa.

Maðurinn hefur fjórtán sinnum áður verið fundinn sekur um refsivert athæfi, þar af átta ofbeldisbrot, og taldi dómur því ekki tilefni til að skilorðsbinda fangelsisdóminn, sem er tólf mánuðir. 

Honum var gert að greiða manninum sem hann nefbraut 500.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum. Þá var honum enn fremur gert að greiða 267.420 krónur í sakarkostnað og 120.000 krónur í málskostnað brotaþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert