Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur ákveðið að ekki verði gerðar breytingar á núverandi aðalskipulagi sveitarfélagsins til að veita heimild fyrir Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti. Þess í stað hefur breytingartillögunni verið vísað til heildarendurskoðunar á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nú stendur yfir.
Þetta þýðir að virkjunarframkvæmdir frestast, í það minnsta um ár. Dagbjört Jónsdóttir sveitarstjóri Þingeyjarsveitar segir að ákvörðunin sé tekin vegna innkominna athugasemda frá ýmsum aðilum. Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) fagna ákvörðuninni.
Einbúavirkjun er fyrirhuguð 9,8 MW vatnsaflsvirkjun í Skjálfandafljóti, um sjö kílómetra ofan við Goðafoss í landi jarðanna Kálfborgarár og Einbúa í Bárðardal. Virkjunin myndi veita um 47 rúmmetrum á sekúndu af flæði Skjálfandafljóts úr farvegi sínum á 2,6 kílómetra kafla með stíflu þvert yfir fljótið.
Harpa Barkardóttir, formaður Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi, segir að við heildarendurskoðun aðalskipulags gefist færi á auknu samráði við íbúa og meðal annars tækifæri til að svara þeirri spurningu hvort menn vilji yfir höfuð virkjun á svæðinu. Sjálf eru samtökin mótfallin virkjunarframkvæmdunum.
„Þetta þýðir að þau ætla að fjalla um málið á heildstæðari hátt í staðinn fyrir að troða þessari skipulagsbreytingu inn áður en farið er í heildarendurskoðun,“ segir Harpa Barkardóttir, formaður Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi. Ákvörðun sveitarstjórnar sé til eftirbreytni og fáheyrt að brugðist sé við umræðu með þessum hætti.
Allir virkjanakostir í Skjálfandafljóti eru í verndarflokki rammaáætlunar þrjú, sem er til umfjöllunar á Alþingi. Flokkunin tekur þó aðeins til virkjanakosta sem eru 10 MW eða meira og hafa samtökin sagt að með virkjunaráformum upp á 9,8 MW sé verið að nýta sér glufu í lögunum. Raforkan yrði flutt inn á meginflutningskerfi raforku og yrði því ekki til þess að auka afhendingaröryggi Bárðdælinga sérstaklega.
Í umsögn Umhverfisstofnunar um umhverfismat er meðal annars bent á að verði af virkjun verði meðalrennsli árinnar aðeins um helmingur af náttúrulegu rennsli, en áhrifin verða enn meiri í þurrustu tíðum þegar það geti farið niður í sex rúmmetra á sekúndu. Mikill aurburður sé í Skjálfandafljóti og ljóst að með virkjun muni burðargeta vatnsfallsins minnka mikið. Virkjunin muni því líklega hafa áhrif á fljótið allt til sjávar.