Halldór Hafdal Halldórsson er gestgjafi á íslenskum öræfum. Í síðustu viku mætti hann á vaktina í Landmannalaugum, en löng hefð er fyrir því að skálar Ferðafélags Íslands þar séu opnir ferðamönnum þegar líða fer á veturinn. „Ég hef verið skálavörður í mörg ár og víða um landið, en finnst fátt toppa að vera hér í Laugum. Í augnablikinu er ég hér einn en finn mig samt ekki sem Róbínson Krúsó, staddur á eyðieyju. Varla kemur sá dagur að ekki séu einhverjir á ferðinni og fleiri mæta eftir því sem lengra líður á veturinn,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið á þriðjudag.
Það var á fimmtudaginn í síðustu viku sem Halldór mætti í Laugar og þar kveðst hann munu verða meira og minna fram yfir páska. „Hér er snjór yfir öllu og færið er gott. Ætli fólk í Landmannalaugar núna er best að fara Sigölduleiðina og þá er maður ekki nema um klukkutíma að rúlla hingað á harðfenninu,“ segir Halldór.
„Allur er þó varinn góður; þessi leið er um 25 kílómetrar og í fyrra var ég með strákunum sem voru tólf tíma að brjótast hingað inn eftir. Svo er líka hægt að fara um Dómadalsleiðina úr ofanverðri Landsveit hingað inn eftir, en þar að Fjallabaki er eitt vinsælasta vélsleðasvæði landsins. Yfirleitt má njóta vetrardýrðar þessa svæðis nokkuð fram í apríl, en þá fer að hlána og kemst blámi og bloti í snjóinn svo allt verður ófært. Við slíkar aðstæður varð ég innlyksa hér fyrir nokkrum árum og var sóttur af þyrlu frá Landhelgisgæslunni.“
Ferðafélag Íslands á stóran gistiskála í Landmannalaugum, sem tekur tæplega 80 gesti. Aðstaðan er öll hin besta og staðurinn hefur aðdráttarafl. Eftir slark á fjöllum er fátt notalegra en að baða sig í heitri náttúrulauginni; snarpheitri og notalegri. „Fólk notar laugina alveg óspart, enda er þetta algjör lukkupottur,“ segir Halldór sem hefur síðustu daga verið að dytta að húsum í Landmannalaugum og koma hlutunum í stand fyrir komu gesta. Margs þarf búið við, rétt eins og máltækið segir.
„Mér finnst alveg dásemd að vera á hálendinu aleinn; töfrar þessa staðar og umhverfis eru miklir alveg sama hver árstíðin er. Öryggismálin hér eru líka í fínu lagi; Landmannalaugar eru með net- og farsímasamband á allra hæsta styrk svo ég næ hér að fylgjast með öllum fréttum og er í fínu sambandi við umheiminn. Hef líka góðar bækur að lesa, hef síðustu kvöldin verið að glugga til dæmis í Grænlandssögur Kim Leine og Kulda eftir Yrsu Sigurðardóttur. Þær bækur eða að minnsta kosti titlar þeirra hæfa staðháttum hér alveg ágætlega,“ segir Halldór Hafdal Halldórsson skálavörður að síðustu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. febrúar.