Helgi Pétursson, sem margir tengja við hið landsfræga Ríó Tríó, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Landssambandi eldri borgara á landsfundi samtakanna sem haldinn verður á vormánuðum.
Helgi segir í samtali við mbl.is að hann hafi ekki verið undir þrýstingi eða stanslausum símhringingum, heldur tekið ákvörðunina að sjálfsdáðum eftir að ljóst varð að formannsskipti í samtökunum yrðu í vor, en Þórunn Sveinbjörnsdóttir er nú formaður sambandsins.
„Ég vil bara láta til mín taka og halda baráttunni áfram. Ég vil berjast fyrir fjárhagslegum kjörum eldra fólks, tækifæri til atvinnuþátttöku og síðan eru ýmsar lagalegar hártoganir sem bitna á eldra fólki. Það þarf síðan að horfa heildstætt á heilbrigðiskerfið, tryggja að það fúnkeri frá vöggu til grafar,“ segir Helgi.
Spurður hvort hann hafi íhugað að bjóða sig fram á þing til að berjast fyrir bættum kjörum eldri borgara slær Helgi á létta strengi og segir hlæjandi:
„Á ég ekki bara að gera það líka? Það vantar sannarlega talsmenn eldra fólks á þing.“
Helgi veit ekki til þess að aðrir sækist eftir embætti formanns sambandsins. Hann segir að vonir standi til þess að landsfundur fari fram í lok maí.
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í Landssambandi eldri borgara á landsfundi samtakanna sem haldinn...
Posted by Helgi Pétursson on Fimmtudagur, 11. febrúar 2021