Nú styttist í að nýr miðbæjarkjarni með húsum í gömlum stíl verði opnaður við brúartorgið á Selfossi. Þar verða ýmis hús sem fólk gæti kannast við frá Selfossi, Reykjavík, Akureyri og annars staðar frá.
Fjölbreytt starfsemi verður í þeim húsum sem risið hafa í fyrsta áfanga verkefnisins sem Sigtún þróunarfélag stendur fyrir, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar framkvæmdir í Morgunblaðinu í dag.
Félagið er að undirbúa í samvinnu við atvinnulífið og hið opinbera að setja upp fjölbreyttar skrifstofueiningar á Selfossi. Þær verða meðal annars í Landsbankahúsinu á Selfossi og eftir tvö ár er reiknað með að búið verði að byggja yfir þær í nýja miðbænum. Sunnlendingar sem vinna á höfuðborgarsvæðinu geta unnið í þessari aðstöðu hluta úr viku í stað þess að aka alla daga til Reykjavíkur. Talið er að aðstaðan geti gert Selfoss að betri búsetukosti. Einnig eru þær hugsaðar fyrir minni fyrirtæki og einyrkja.