Sádiarabíska baráttukonan Loujain al-Hathloul var látin laus úr fangelsi í gær eftir að hafa setið í 1001 dag í haldi að sögn fjölskyldu hennar. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra fagnar lausn Loujain.
Hathloul, sem er 31 árs, var handtekin í maí 2018 ásamt rúmum tug annarra kvenna, nokkrum dögum áður en áratugalangt bann við akstri kvenna var afnumið. Mál sem konurnar höfðu meðal annars barist fyrir auk annarra réttinda kvenna í konungsríkinu.
Þrátt fyrir að vera laus úr haldi er hún enn undir eftirliti og bannað að yfirgefa Sádi-Arabíu. Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út meðal fjölskyldu hennar og vina í gær sem hafa barist fyrir lausn Loujain al-Hathloul undanfarin ár.
„Loujain er komin heim,“ skrifar systir hennar, Lina al-Hathloul, á Twitter. „Heima eftir 1001 dag í fangelsi,“ bætti hún við og birti mynd af systur sinni brosandi.
Lina al-Hathloul var aðalræðumaður á málþingi sem haldið var í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum 10. desember 2019 hér á landi.
Lina hefur barist fyrir frelsi systur sinnar, Loujain al-Hathloul, sem var rænt úti á götu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í maí 2018 og flutt til Sádi-Arabíu þar sem hún sat í fangelsi þangað til í gær. Hún var meðal annars pyntuð og haldið í einangrun í fangelsinu. Loujain hafði um árabil barist fyrir afnámi forræðis karla yfir konum í Sádi-Arabíu og akstursbanni kvenna áður en hún var fangelsuð.
„Ég fagna því mjög að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafi leyst Loujain úr haldi og þótt fyrr hefði verið. Hennar barátta fyrir réttindum kvenna í Sádi-Arabíu hefur réttilega vakið heimsathygli enda hefur hún aðeins farið fram á fullkomlega sjálfsögð réttindi fyrir hönd kvenna.
Ákærur gegn henni hafa verið úr öllu hófi, hún hefur verið sökuð um hryðjuverk og sætt harðræði í fangelsi. Mál hennar hefur haft áhrif á marga,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
„Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að hitta systur hennar, Linu al-Hathloul, þegar hún kom hingað í desember 2019. Það var eftirminnilegur fundur, Lina hefur barist linnulaust fyrir því að vekja athygli á máli systur sinnar og hún hefur ekki síður sýnt hugrekki en Loujain.
Lina var hingað komin til að taka þátt í fundi um reynslu Íslands af setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en við tókum á sínum ákveðið frumkvæði í mannréttindaráðinu að því að beina kastljósinu að ástandi mannréttindamála í Sádi-Arabíu.
En á meðan við fögnum því að nú sé búið að leysa Loujain úr haldi ber að gæta að því að ólögmætur dómur yfir henni er eingöngu skilorðsbundinn og hún nýtur ekki ferðafrelsis, ekki frekar en foreldrar hennar sem búa í Sádi-Arabíu, og getur því m.a. ekki hitt systkini sín sem búa annars staðar. Barátta fjölskyldunnar og annarra fyrir bættum mannréttindum í Sádi-Arabíu heldur því áfram en þetta skref er jákvætt og veit vonandi á gott,“ segir Guðlaugur Þór.
Frétt mbl.is
Forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, fagnaði niðurstöðunni en hann hefur gagnrýnt krónprinsinn í Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, fyrir mannréttindabrotin í landinu. Biden segir að þetta hafi verið rétt ákvörðun og bandaríska utanríkisráðuneytið segir að það hefði aldrei átt að fangelsa Hathloul að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, sem hefur ítrekað krafist lausnar Hathloul, fagnaði fréttunum á Twitter í gærkvöldi.
Undir lok desember var Hathloul dæmd í fimm ára og átta mánaða fangelsi fyrir hryðjuverk en dómurinn var að hluta skilorðsbundinn og því var hún látin laus nú. Hún var meðal annars dæmd fyrir brot á allsherjarreglu og að hafa reynt að grafa undan stjórnvöldum.
Að sögn fjölskyldu Hathloul er baráttunni hvergi nærri lokið þrátt fyrir að Loujain sé komin heim en henni er meðal annars bannað að ferðast næstu fimm árin auk þess sem ásökunum hennar um pyntingar og annað ofbeldi í fangelsinu hefur verið vísað á bug af dómstólum.
Lausn Loujain al-Hathloul er gríðarlegur léttir en um leið löngu tímabær segir Lynn Maalouf, sem starfar fyrir Amnesty International í Mið-Austurlöndum. Ekkert geti bætt fyrir grimmilega meðferð á henni eða ranglætið sem hún hefur mátt þola bætir Maalouf við.
Mikil breyting varð á stöðu Sádi-Arabíu gagnvart Bandaríkjunum eftir valdaskiptin í janúar en í valdatíð Donalds Trumps í embætti forseta fengu yfirvöld þar í raun frítt spil þegar kom að mannréttindabrotum. Biden er ekki á sama máli og er gert ráð fyrir að hann muni þrýsta mjög á lausn fólks úr fangelsi sem er með tvöfalt ríkisfang, bandarískt og sádiarabískt. Eins lausn aðgerðasinna og fólks úr konungsfjölskyldunni en margir eru í haldi án formlegrar ákæru í Sádi-Arabíu.
Hathloul fór meðal annars í hungurverkfall í fangelsinu til að mótmæla fangelsuninni og greindi frá því við réttarhöldin að hún hefði verið pyntuð og beitt kynferðislegu ofbeldi af grímuklæddum körlum við yfirheyrslur. Hún, líkt og fleiri baráttukonur, lýsti því hvernig hún var barin með prikum, gefið raflost og pyntuð með vatni (waterboarding) en þar er viðkomandi bundinn þannig að höfuðið hallast niður, og vatni svo hellt yfir höfuðið til að framkalla drukknunartilfinningu.
Foreldrar Hathloul greindu frá því á sínum tíma að dóttir þeirra hefði verið með áverka þegar þau fengu að heimsækja hana í fangelsi en áfrýjunardómstóll hafnaði ásökunum hennar um pyntingar.