Litháar og Íslendingar fagna 30 ára vináttu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Inga Minelgaité, heiðursræðismaður Litháen á …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Inga Minelgaité, heiðursræðismaður Litháen á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Inga Minelgaité, heiðursræðismaður Litháen á Íslandi, færði Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra blóm við hátíðlega athöfn í utanríkisráðuneytinu í dag. Í dag eru 30 ár liðin frá því Ísland viðurkenndi formlegt sjálfstæði Litháen, fyrst allra ríkja.

Af því tilefni var einnig gert myndband þar sem íbúar Litháen á Íslandi þakka Íslendingum þrjátíu sinnum fyrir sjálfstæðisviðurkenninguna 1991, eitt „takk“ fyrir hvert ár. Í samtali við mbl.is segir Inga að frá því hugmyndin um gerð slíks myndband kviknaði, liðu ekki nema um 25 mínútur þar til það var komið í framkvæmd.

„Það tekur ekki langan tíma að sannfæra Litháa þegar kemur að því að þakka Íslendingum fyrir,“ sagði Inga.

„Allir sem ég heyrði í vegna málsins stukku til og vildu taka þátt. Við erum mjög ánægð með þetta myndband og okkur þykir þetta sýna vel hversu fjölbreyttur hópur fólks Litháar á Íslandi eru.“

Litháar þekkja söguna vel

Að sögn Ingu er vel haldið utan um sjálfstæðissögu Litháen og hlutverk Íslands í viðurkenningu sjálfstæðis landsins eftir fall Sovétríkjanna. Ísland varð einnig fyrst allra ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Lettlands og Eistlands, nágrannaríkja Litháen, þegar Sovétríkin féllu.

„Við kennum börnum, bæði í Litháen og hérna á Íslandi, hversu falleg vinátta þessara tveggja þjóða er. Margir Litháar fagna þessum tímamótum með því að merkja forsíðumynd sína á Facebook með svona „banner“ þar á meðal eru þingmenn í Litháen. Þannig að það fagna þessu allir og allir fagna á sinn hátt.“

Árið 2006, þegar 15 ár voru liðin frá því Ísland viðurkenndi formlega sjálfstæði Litháen, söfnuðu Litháar undirskriftum þar sem Íslendingum var þakkað. Lagt var upp með að safna 300 þúsund undirskriftum, einni fyrir hvern Íslending, en að lokum söfnuðust um 200 þúsund undirskriftir sem voru afhentar þáverandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Forsetahjónunum fyrrverandi, Ólafi Ragnari Grímssyni og Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, var …
Forsetahjónunum fyrrverandi, Ólafi Ragnari Grímssyni og Guðrúnu Katrínu Þorbergsdóttur, var vel tekið í opinberri heimsókn til Litháen árið 1998. Hér heilsa þau upp á mannfjölda sem fagnaði þeim í Kaunas, annarri stærstu borg Litháen. Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Margar götur í stærstu borgum í Litháen eru nefndar til heiðurs Íslandi, til dæmis Islandijos gatvė í miðborg Vilníus, Islandijos plentas (breiðstræti) í Kaunas og Reikjaviko gatvė bæði í Vilníus og Klaipėda. Í júní er sjálfstæðisdegi Íslands fagnað í Vilníus með sérstökum hátíðarhöldum. Haldið er upp á daginn með íslenskri tónlist ásamt því að íslenskur bjór og matur er framreiddur. Menningarviðburðir fara fram til að fagna sambandi landanna. Íslandsstræti í Vilníus er skreytt með íslenska fánanum og litum hans 17. júní.

Í dag búa um 3.500 Litháar á Íslandi. Fyrstu innflytjendurnir sem settust að á Íslandi frá Litháen var afreksíþróttafólk sem kom fyrst til landsins í kringum aldamótin. Teodoras Bieliackinas var þó fyrsti Litháinn sem settist hér að árið 1930, en hann skrifaði fréttagreinar um Ísland fyrir fréttamiðla í Litháen.

Hér fyrir neðan má sjá kveðju frá utanríkisráðherra Litháen vegna tilefnisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert