Meintir sóttkvíarbrjótar geti búist við sekt

Mennirnir sátu og drukku á bar í miðbæ Reykjavíkur en …
Mennirnir sátu og drukku á bar í miðbæ Reykjavíkur en voru farnir þegar lögreglu bar að garði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar enn tveggja amerískra manna sem grunaðir eru um að hafa brotið sóttkví á sunnudag þegar þeir sátu við drykkju á Lebowski Bar í miðbæ Reykjavíkur. Mennirnir voru farnir þegar lögregla kom á staðinn. 

Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að lögreglan vilji ná tali af mönnunum og þeir „geti alveg búist við því að fá sekt“.

Lögreglan hafði fengið í hendurnar heimilisfang sem talið var að væri dvalarstaður mannanna en þeir voru ekki þar. 

Aðspurður segir Jóhann Karl að mál sem þessi komi reglulega á borð lögreglu þótt þau hafi verið fleiri í haust og í sumar en nú er. 

Við munum tala við þá

Spurður um það hvort mennirnir verði handteknir segir Jóhann Karl:

„Við munum tala við þá, svo skrifum við á þetta og svo er það undir ákærusviðinu komið hvort gefin verði út sekt. Þeir geta alveg búist við því að fá sekt.“

Við komuna til landsins er fólki skylt að fara í tvöfalda skimun fyrir kórónuveirunni með nokkurra daga sóttkví á milli. 

Fréttablaðið greindi fyrst frá meintu broti mannanna í gær og hafði það eftir heimildum sínum að árvökult starfsfólk Lebowski hafi heyrt mennina ræða að þeir ættu að vera í sótt­kví meðan þeir sátu að sumbli. Þá hafi starfsfólkið óskað eftir lögregluaðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert