Nauðsynlegir styrktartónleikar á Siglufirði

Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir báru sigur úr býtum í Söngkeppni …
Tryggvi og Júlíus Þorvaldssynir báru sigur úr býtum í Söngkeppni framhaldsskólanna 2020. Tryggvi er beggja vegna borðs á styrktartónleikum fyrir björgunarsveitina Stráka í kvöld. Hann skipuleggur þá og kemur um leið sjálfur fram. Sömuleiðis er hann sjálfur í björgunarsveitinni. Skjáskot/RÚV

Siglfirsk klassík verður í öndvegi á streymistónleikum frá Siglufjarðarkirkju í kvöld, sem eru haldnir til styrktar björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði. 

Tryggvi Þorvaldsson björgunarsveitarmaður, einn skipuleggjenda tónleikanna, segir að ágóðinn fari í mikilvæg húsnæðismál. Verið var að fjárfesta í nýju björgunarsveitarhúsi á Vesturtanga á Siglufirði, sem Tryggvi segir að verði mjög til bóta fyrir sveitina. Viðbragðstíminn styttist, einkum í sjóútköllum.

Þetta þarf að fjármagna og það er gert til dæmis með þessum tónleikum. Þar kemur Tryggvi reyndar einnig sjálfur fram sem tónlistarmaður ásamt bróður sínum Júlíusi, en þeir eru sigurvegarar Söngkeppni framhaldsskólanna 2020. Þá stíga Fílapenslarnir einnig á svið, gömul siglfirsk hljómsveit.

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 og verður streymt á YouTube. Það kostar 2.500 inn og söfnunarreikningur verður einnig í gangi.

Björgunarsveitin Strákar.
Björgunarsveitin Strákar. Ljósmynd/Strákar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert