Enga tímalínu er að finna um væntanlegar bólusetningar hér á landi að sögn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Hann segir engan fyrirsjáanleika vera til staðar um bólusetningar, einungis óljósar tölur um bólusetningar í júlí fram í september sem reiknaðar eru út frá norskum tölum í fjölmiðlum.
Þetta kom fram í máli Björns Levís á óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Björn Leví beindi orðum sínum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og spurði hana hvenær rök fyrir takmörkunum innanlands hverfi.
„Einungis 4.300 erlendir ferðamenn komu til landsins í janúar, 4.300 á mánuði í samanburði við rúmlega 120.000 venjulega. Þarna liggur áhættan núna eftir rúmlega fjóra mánuði af ströngum sóttvarnaaðgerðum, áhættan um aðra bylgju áður en bólusetning hefur áhrif. Fréttir herma að nærri 200.000 Íslendingar verði bólusettir í september, 120.000 í júlí. Það eru fjórir mánuðir þangað til, sami tími og við höfum verið að glíma við nýliðna bylgju og sóttvarnaaðgerðir. Eigum við að halda niðri í okkur andanum í fjóra mánuði í viðbót svo við getum kannski fengið 20.000 ferðamenn til landsins á meðan eða getum við gert betur? Þurfum við að loka landamærum enn frekar eða getum við opnað landamærin meira þegar allir viðkvæmir og forgangshópar eru orðnir bólusettir? Ef svo er, hvenær er von á því?“ spurði Björn Leví.
„Það er nefnilega enga tímalínu um væntanlegar bólusetningar að sjá á vefnum bóluefni.is. Enginn fyrirsjáanleiki nema óljósar tölur um bólusetningar í júlí til september sem eru reiknaðar út frá norskum tölum í fjölmiðlum. Þar segir einnig að það geti orðið allt að tveggja mánaða seinkun á þeim sendingum. Heilbrigðisráðherra segir að hægt verði að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrri helmingi árs en það er ekki í júlí. Hvað þýðir þorri þjóðarinnar og hvaða áhrif hefur það á sóttvarnaðgerðir?“ sagði Björn.
Katrín sagði í svari sínu að staða faraldursins hér á landi væri góð. Nýgengni innanlandssmita sé á góðum stað og Ísland sé eitt af örfáum löndum í Evrópu sem teljist nú til grænna landa. Nýgengni landamærasmita sé þó töluvert hærri.
„Það liggur fyrir að við höfum ákveðið að halda óbreyttu fyrirkomulagi á landamærum til 1. maí. Þá horfum við til þess að taka upp það kerfi að vera með einfalda skimun fyrir þá sem eru frá grænum svæðum en tvöfalda skimunin haldi sér fyrir rauð svæði og horft verði til þess hvort hugsanlega verði hægt að nýta kröfu um neikvæð PCR-próf, eins og raunar öll lönd eru að taka upp, fyrir þá sem eru þar á milli, þ.e. á appelsínugulum og gulum svæðum. Þetta er sá fyrirsjáanleiki sem ég vonast til að muni halda og að sjálfsögðu hangir þetta sömuleiðis saman við framgang bólusetninga,“ sagði Katrín.
Katrín sagði að það fyrirkomulag sem tekið var upp á landamærunum 19. ágúst hafi sannað gildi sitt.
Hvað varðar framgang bólusetninga sagði Katrín það rétt hjá Björn Leví að óvissan sé enn töluverð um það hvernig afhendingaráætlun muni ganga á öðrum ársfjórðungi.
„Raunhæft er að reikna með því að afhending bóluefna aukist verulega á öðrum ársfjórðungi frá fyrsta ársfjórðungi. Það sjáum við t.a.m. vegna þess að verið er að tala um að afhending á bóluefni Janssen, sem vonir standa til að fái evrópskt markaðsleyfi í lok þessa mánaðar, geti hafist á öðrum ársfjórðungi; Pfizer er að auka framleiðslugetu sína, fyrir utan að núna er kominn samningur um bóluefni frá Curavac. Þess er líka vænt að hægt verði að hefja afhendingu þess á öðrum ársfjórðungi,“ sagði Katrín.
„Við höfum auðvitað fylgst með umræðunni í Evrópusambandinu þar sem einmitt kom fram í ræðu Ursulu von der Leyen í gær að þau hefðu lagt svo mikla áherslu á þróun sjálfra bóluefnanna að afhendingin hefði orðið út undan í áætlunum þeirra. Og það er réttmæt gagnrýni. En um leið standa væntingar mínar til þess að þessi afhending muni ganga töluvert hraðar á öðrum ársfjórðungi,“ sagði Katrín og bætti við að hún telji að ákveðin tímamót verði þegar bólusetningu viðkvæmra hópa ljúki.