Sumarið verði eins frjálslegt og hægt er

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að ef smitfjöldi verður áfram lágur og tryggt verður að kórónuveirusmit komist ekki inn í gegnum landamærin verði mögulegt að „hafa umhverfi og allt líf eins frjálslegt og hægt er í sumar“. 

Þetta kom fram í svari hans við spurningu blaðamanns mbl.is á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Þar sagðist hann vongóður um að staðan yrði góð í sumar.

„Ég held að það eina sem sé hægt að segja með vissu um sumarið er að það muni koma. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvernig sumarið verður,“ sagði Þórólfur, spurður um sumarið. 

„Ég held að við þurfum að sjá aðeins hvernig afhendingaráætlun bóluefnaframleiðendanna verður, hversu mikið við höfum af bóluefnum, hvernig gengur að bólusetja og svo framvegis áður en við förum að segja með vissu hvernig sumarið verður.“

Nú hafa einungis þrjú virk kórónuveirusmit greinst innanlands síðastliðna viku. Enginn er inniliggjandi á Landspítala með virkt smit og því gefur auga leið að staðan er nokkuð góð. Miðað við svör Þórólfs gæti Íslendingum verið umbunað fyrir árangurinn í sumar ef staðan helst eins.

„Ef okkur tekst að halda ástandinu eins og það er núna og tryggja það að við fáum ekki smit í gegnum landamærin munum við náttúrulega reyna að hafa umhverfi og allt líf eins frjálslegt og hægt er í sumar. Ég er nú bara tiltölulega vongóður með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert