Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir harmaði það á upplýsingafundi almannavarna í dag að ekki hefði orðið af rannsóknarverkefni Pfizer hér á landi.
Úr því aldrei var neitt fast í hendi furðaði hann sig á þeim umræðum sem sprottið hefðu upp um siðfræðilega hlið málsins, þó að vissulega tæki hann fram að siðfræðilegar umræður eigi alltaf rétt á sér.
Þar var hann trúlega að vísa til gagnrýni Vilhjálms Árnasonar heimspekings og fleiri fræðimanna, þar sem velt var upp spurningum um siðferðilegt réttmæti rannsóknarinnar hér á landi.
Þórólfur svaraði gagnrýninni í löngu máli í sjö liðum en tók þó fram að fleira hefði mátt tína til í þessari umræðu.
Þórólfur: „Helstu gagnrýnisraddir sem heyrst hafa um mögulegar vísindarannsókn hafa verið eftirfarandi:
Í fyrsta lagi að ekki sé siðfræðilega rétt að troðast fram fyrir röðina eftir bóluefni og láta þannig aðra bíða lengur. Vissulega má ræða þetta en ég vil benda á að við erum með tillögum okkar að svara knýjandi spurningum á vísindalegan hátt sem við teljum að gagnist fleirum en okkur í baráttunni gegn Covid-19. Einnig má benda á að ef af þessu hefði orðið hefði öðrum verið úthlutað án gjalds því bóluefni sem við höfum tryggt okkur kaup á og ekki þurft að nota rannsóknarinnar vegna. Ef við hefðum hins vegar reynt að troða okkur fram fyrir í röðinni án nokkurra skuldbindinga þá hefði það ekki verið siðferðilega rétt að mínu mati.
Í annan stað hefur komið fram gagnrýni um það að landsmenn hafi ekki verið upplýstir um gagnsemi svona rannsóknar og þetta er bara ekki rétt gagnrýni vegna þess að við höfum margoft lýst því hvaða gagnsemi við gætum fengið af svona rannsókn bæði fyrir okkur og aðrar þjóðir.
Í þriðja lagi hefur komið fram gagnrýni á að efast megi um vísindalegt gildi svona rannsóknar hér á landi og fyrir aðrar þjóðir. Sérstaklega að ef svona rannsókn væri gerð á Íslandi væri gagnsemin óljós fyrir aðrar þjóðir. Því er til að svara að vísindalegt gildi rannsóknar á Íslandi er jafnmikið fyrir aðrar þjóðir og vísindalegt gildi rannsókna sem gerðar eru erlendis fyrir Ísland.
Í fjórða lagi hefur komið fram gagnrýni um að svona bóluefni eigi heima í fátækari löndum þar sem að hún muni koma að meira gagni. Gagnsemi vísindarannsókna stendur ekki og fellur með því hvar hún er gerð, heldur hvort innviðir í landinu séu undir það búnir að svara þeim rannsóknarspurningum sem settar eru fram. Ég tel að fáar þjóðir hafi jafngóða innviði til að gera svona vísindarannsókn eins og við höfum verið að tala um og Íslendingar.
Í fimmta lagi hafa komið fram spurningar um það hvort afla verði upplýsts samþykkis hinna bólusettu. Eins og við höfum áður sagt, hefði svona rannsókn að sjálfsögðu, ef af henni hefði orðið, þurft að ganga í gegnum alla eðlilega ferla hjá til dæmis vísindasiðanefnd og Persónuvernd en það eru þeir ferlar sem tryggja að allt sé gert á réttan hátt. Þar á meðal að krafist verði upplýsts samþykkis þar sem það á við.
Síðan hefur líka komið fram spurning um það hvort þeim sem neiti þátttöku í vísindarannsókn verði meinað um bólusetningu og eins hvort einungis sé ætlunin að bólusetja 60% þjóðarinnar og neita hinum um bólusetningu. Að sjálfsögðu yrði engum meinað um bólusetningu þó að hinn sami vilji ekki taka þátt í vísindarannsókn. Hins vegar er ekki hægt að svara nákvæmum spurningum um útfærslu rannsóknar fyrr en í fyrsta lagi þegar ákveðið hefur verið að gera rannsóknina og svo hvort og hvernig hún verður þá gerð. Hvorugt er til staðar varðandi þessa hugmynd og því ekki hægt að ræða praktískar útfærslur rannsókna.
Einnig hefur verið talað um hvort það sé réttlætanlegt að Ísland verði tilraunastaður fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki og Íslendingar verða gerðir að tilraunadýrum. Því er til að svara að þessa rannsókn er engan veginn hægt að túlka þannig að verið sé að gera Íslendinga að tilraunadýrum fyrir alþjóðlegt lyfjafyrirtæki. Í rannsókninni sem við höfum verið að ræða hefðu allir verið bólusettir sem það hefðu viljað en síðan hefði fólk þurft að gefa samþykki fyrir að taka þátt í einstaka rannsóknum. Þótt ekki verði af rannsókninni munum við eftir sem áður hvetja alla til að þiggja bólusetningu þeirra bóluefna sem standa til boða.“