Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt sig úr flokknum og sagt af sér varaþingmennsku. Hún greindi flokksmönnum frá þessu með bréfi í dag.
Jóhanna skipaði annað sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður fyrir síðustu kosningar og er varaþingmaður Ágústs Ólafs Ágústssonar, eina þingmanns flokksins í kjördæminu. Hún hefur tekið sæti á þingi, til að mynda þegar Ágúst Ólafur fór í tveggja mánaða leyfi eftir að hann varð uppvís að kynferðislegri áreitni.
Í samtali við mbl.is segir Jóhanna að hún sé ósátt við ferlið við val á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum. Farin var sú leið að fela uppstillingarnefnd að velja lista flokksins, en þó þannig að hún skyldi hafa til hliðsjónar könnun sem gerð var meðal félagsmanna í desember. Jóhanna hafði gefið kost á sér í könnuninni, en ekki fengið sæti sem henni hugnaðist hjá uppstillingarnefnd.
„Stjórnmál eru eins og fótbolti, best þegar allir spila eftir sömu leikreglunum,“ segir Jóhanna. Fyrirkomulagið sem varð fyrir valinu sé ógagnsætt, segir hún án þess að vilja fara nánar út í það.
Jóhanna er framkvæmdastjóri Almannaróms – miðstöðvar um máltækni, en hún var áður framkvæmdastjóri atvinnu- og alþjóðatengsla hjá Háskólanum í Reykjavík. Spurð hvort hún hyggist leita á önnur mið innan pólitíkurinnar, segir hún að það sé ekki á stefnuskránni á næstunni. „Ég sinni mikilvægu og skemmtilegu starfi við máltækni fyrir íslensku, og ætla að halda áfram að sinna því af fullum krafti.“