Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að gera samkomulag til þriggja ára við Múlaþing og Austurbrú, samstarfsvettvang stjórnsýslu á Austurlandi um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði.
Verkefninu fylgir 215 milljóna króna framlag á næstu þremur árum, eftir því sem fram kemur á vef Stjórnarráðsins. Gert er ráð fyrir að fjármagninu verði m.a. varið í ráðningu rekstrarráðgjafa, í endurskipulagningu, í nýsköpunar og þróunarsjóð og leigustuðning.
Fram kemur í tilkynningu að atvinnulífið á Seyðisfirði standi frammi fyrir fordæmalausum og fjölþættum vanda í kjölfar aurskriðanna í desember síðastliðnum. Vandinn snúi meðal annars að rekstrarumhverfi og húsnæðismálum, en hamfarirnar höfðu veruleg áhrif á fjölda fyrirtækja sem sum hver hafa misst húsnæðið og er hætta á að einhver þeirra hverfi úr bænum.
Sveitarfélagið Múlaþing og Austurbrú hafa staðið frammi fyrir umfangsmikilli greiningu á atvinnulífinu á Seyðisfirði sem hefur leitt í ljós að mikilvægt sé að styðja við heimamenn, ekki síst á næstu mánuðum.